132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:59]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér er vissulega vandi á höndum að bregðast við allri þeirri umræðu sem hér er því að það hefur komið fram að þetta mál snýr að miklu fleiri ráðuneytum en ég fer með. Ég er ekkert að kveinka mér undan því. Ég dreg fram stöðuna eins og hún er og þær aðgerðir sem hafa verið í framkvæmd. Svar mitt sýnir að það eru aðgerðir í gangi á mjög mörgum vígstöðvum. Hins vegar er ég fylgjandi því að menn endurskoði samstarfsaðferðir, það þarf ætíð að gera. Ég hef ekki vikist undan því.

Hér hefur verið rætt um að þetta sé þjóðarvá. Ég er sammála því en við megum samt ekki mála ástandið of dökkum litum. Það er afmarkaður hópur sem þarna er um að ræða og kannanir sýna að fíkniefnaneysla hjá ungmennum er langt frá því að vera reglan en hins vegar er hún mikill vandi þar sem hún er fyrir hendi. Fíkniefni og áfengisneyslan er vandi. En hvaða skilaboð sendir þingið til þjóðarinnar? Það sendir þau skilaboð að það eigi að lækka áfengiskaupaaldurinn, það eigi að færa áfengið í búðir, svo ég bæti við það sem hv. þm. Hlynur Hallsson sagði áðan. Þetta eru skilaboð þingsins til samfélagsins til viðbótar við auglýsingarnar. Væri nú ekki rétt að þingið sendi önnur skilaboð varðandi þetta?

Varðandi SÁÁ þá eru fullyrðingar þeirra í umræddu tímariti algjörlega ótímabærar því að samningaviðræður standa yfir við þá og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þeim lykti með farsælum hætti eins og þær hafa alltaf gert. Þær standa yfir og ég er bjartsýnn á að það (Forseti hringir.) náist niðurstaða í þeim að lokum.