132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:02]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í morgun kom hv. formaður iðnaðarnefndar í pontu og gerði það að umræðuefni að sjávarútvegurinn væri byggðamál. Ég er honum algerlega sammála þannig að ég vonast til þess að jafnungur, efnilegur og vel gefinn drengur og hv. þingmaður skoði samhengi verkanna við atvinnu- og byggðaþróun í landinu. Rétt til að leiða hann af stað í það göfuga verk þá ætla ég að lesa fyrir hann eina blaðsíðu úr skýrslu sem unnin var fyrir Byggðastofnun í mars 2001 og heitir Sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi. Ég lesa bara lokaorðin. Ég veit að það dugar hv. þingmanni ágætlega til að fara af stað í þetta verk. Ég hygg reyndar að enda þótt þingmaðurinn sé ungur að árum hafi hann fylgst með pólitískri umræðu lengi. Ef ég man rétt var hann aðstoðarmaður ráðherra áður en hann var kosinn þingmaður þannig að ég treysti því og þykist reyndar vita að hv. þingmaður veit nokk um þessa skýrslu sem ég er að vitna í. En, með leyfi forseta, hljóða lokaorðin þannig:

„Af framansögðu er ljóst að ýmsar breytingar hafa átt sér stað í sjávarútvegi eftir 1990 með breytingu laganna um stjórn fiskveiða nr. 38/1990. Þetta kemur fram með afgerandi hætti eftir 1995.“ Hv. þingmaður. Hverjir voru þá í ríkisstjórn? (Gripið fram í: Framsóknarflokkurinn.) Já. Þú ert alveg með á nótunum, ég heyri það. — „Samhliða þessum breytingum eiga sér stað miklar breytingar á íbúafjölda á landsbyggðinni á síðari hluta síðasta áratugar.“ — Þær breytingar í samanburði við árin á undan eru afgerandi, hv. þingmaður.

„Í þessu sambandi er sérstaklega bent á eftirfarandi:

1. Skipting veiðiheimilda á milli landshluta tekur miklum breytingum eftir 1995 miðað við árin á undan. Mismunurinn á milli landshluta fer vaxandi eftir því sem frá líður.

2. Samhliða breyttri skiptingu veiðiheimilda á milli landshluta aukast skuldir í sjávarútvegi verulega eftir árið 1995. Verður því að telja að þessar tilfærslur á veiðiheimildum hafi leitt til aukins fjármagnskostnaðar.

3. Frá 1984 til 1989 fara laun sem hlutfall af tekjum í fiskiðnaði hækkandi, þegar hlutfall hráefnis breytist lítið. Eftir það á sér stað mikil breyting, hlutfall hráefnis hækkar úr 48% árið 1989 í 60% árið 1996“ — þegar framsalið fór að virka verulega. — „Á sama tíma lækkar hlutfall launa úr 21% í 16,5% árið 1996.

4. Frá árinu 1998 til ársins 1992 hækka laun við fiskveiðar og fiskvinnslu sem hlutfall af meðallaunum. Eftir árið 1992 lækkar hlutfallið í fiskiðnaði. Ef eingöngu eru athuguð laun við frystingu, söltun og herslu, þá lækkar hlutfallið úr 96% árið 1992 í 84% árið 1997.“ — Þegar Framsóknarflokkurinn hefur verið við völd í tvö ár.

5. Eftir 1995 hefur nokkuð verið um það að stór og smá sjávarútvegsfyrirtæki hafa sameinast með alvarlegum afleiðingum fyrir ýmis byggðarlög.“ — Síðan er vitnað í mynd í skýrslunni.

„6. Frá árinu 1994 hefur íbúum landsbyggðarinnar fækkað um 4.000 manns samanborið við að íbúum þar fjölgaði um 613 manns næstu þrjú ár á undan. Fullyrða má að þeir orsakaþættir sem að framan er lýst eiga hér ómældan hlut að máli þrátt fyrir að fleira komi til.“

Síðan segir í niðurlagsorðunum:

„Hér að framan hefur verið leitast við að svara þeirri fyrirspurn stjórnar Byggðastofnunar hvort lögin um stjórn fiskveiða hafi áhrif á byggðaþróun í landinu. Ljóst er að ákvæði laganna um frjálst framsal veiðiheimilda hefur haft víðtækar afleiðingar á þróun byggðar í landinu með tilflutningi aflaheimilda á milli landshluta og einstakra byggðarlaga. Sem dæmi má nefna að byggðarlög á Snæfellsnesi eru að styrkjast en byggð á Vestfjörðum að veikjast. Þetta hefur leitt til verulegrar skuldaaukningar í sjávarútvegi, lækkunar launa í fiskvinnslu í samanburði við aðrar atvinnugreinar og fólksflótta af landsbyggðinni.

Ekki er að merkja miklar breytingar í þessa veru fyrr en eftir 1995, þegar sjávarútvegurinn hafði bætt rekstrarstöðu sína eftir skuldaskilin frá 1989/1990 og aflaheimildir voru orðinn góður fjárfestingarkostur.“

Sem sagt. Það liggur fyrir í skýrslu sem unnin var fyrir stjórn Byggðastofnunar á árinu 2001 hvaða orsakir eru þá taldar sérstaklega hafa leitt til verulegrar byggðaröskunar og byggðavanda hér á landi, fækkunar fólks á landsbyggðinni o.s.frv.

Ég vildi stinga þessu inn í umræðuna, hæstv. forseti, eingöngu til að upplýsa hv. þingmann sem á að fjalla um þetta mál í hv. nefnd og ég held líka að hæstv. iðnaðarráðherra hafi haft ágætt af því að ég las lokaorðin í þessari skýrslu. Þetta er bara upprifjun fyrir okkur og ég hygg að ráðherrann hafi einnig gott af þeirri upprifjun. (Gripið fram í.)

Sagði hæstv. ráðherra eitthvað? (Iðnrh.: Það var lítið.) Ég heyri að ráðherrann hefur ekki fræðst nóg af því sem ég var að segja og þess vegna ætla ég að vitna í aðra skýrslu sem unnin var fyrir Byggðastofnun. Hún er um áhrif kvótasetningar aukategunda hjá krókabátum á byggð á Vestfjörðum, en í samantekt þeirrar skýrslu segir m.a.:

„Miðað við samdrátt í afla til vinnslu upp á 6.200 tonn af slægðum afla, vegna kvótasetningar ýsu, steinbíts og ufsa, má gera ráð fyrir því að ársverkum í landvinnslu á Vestfjörðum fækki um 93, sé miðað við upplýsingar frá Samtökum fiskvinnslustöðva.

Landssamband smábátaeigenda gerir ráð fyrir því að störfum við smábátaútgerð á Vestfjörðum fækki um 160–200 vegna kvótasetningar ýsu, steinbíts og ufsa.“

Ég ætla rétt að vona að hæstv. ráðherra skoði slík plögg sem lögð er vinna í fyrir Byggðastofnun, sem er ein af þeim stofnunum sem sérstaklega á að fylgjast með vanda landsbyggðarinnar og leggja þar lið. Ég að það sé mjög nauðsynlegt að við höfum þetta í huga. Það er auðvitað svo að þegar aflaheimildir færast til þá er líklegt að einhver byggðarlög hagnist, þau sem aflaheimildirnar fá, en það er alveg ljóst að þær fara oft frá byggðunum sem veikast standa. Þess vegna höfum við m.a. þessi vandamál í sjávarbyggðum sem hafa af einhverjum orsökum lent í erfiðleikum og sitja uppi með þann vanda.

Þó að margt sé farið að gera í byggðamálum, m.a. koma á vaxtarsamningum og öðru slíku, og reynt sé að fá fram jákvætt viðhorf og sameiginlegar fjárfestingar ríkis og fyrirtækja á viðkomandi svæðum þá er það svo á mörgum svæðum sem lent hafa í skakkaföllum að menn eru búnir að eyða eða fjárfesta fyrir þá fjármuni sem þeir hafa yfir að ráða. Oft og tíðum sitja þessi byggðarlög eftir með það vandamál, sem er auðvitað afar mikið vandamál fyrir hverja byggð, að hafa ekki lengur á að skipa eða eiga ekki lengur aðgang að öflugum fyrirtækjum. Það höfum við séð í ýmsum byggðum landsins, því miður, að þeir sem voru þar fyrir, m.a. í sjávarútvegi og reyndar í öðrum fyrirtækjum einnig, hafa lent í erfiðleikum með reksturinn og tapað fjármunum og eiga þar af leiðandi ekki fjármuni til að takast á við ný átök í atvinnumálum.

Það er oft svo í smærri byggðunum að þar er ákveðinn kjarni manna sem fæst við það að reyna að halda atvinnulífinu gangandi og þegar búið er að taka kraftinn úr þeim og þeir hafa tapað fjármunum sínum og eignastöðu þá er oft ekki að mörgu að hverfa í þeim byggðarlögum. Þess vegna er nauðsynlegt að horfa kannski víðar en það að hægt sé að fá styrk í vaxtarsamningunum í héraðinu, ég hygg að koma þurfi á sérstökum lánveitingum og styrkjum, m.a. frá Byggðastofnun, á móti því sem menn hugsanlega vilja stofna til og nýta sér vaxtarsamningana til. Og þá kem ég að Byggðastofnun í fyrri ræðu minni.

Það hlýtur að vekja hjá okkur verulegan ugg hver staða Byggðastofnunar er í dag og það að Byggðastofnun skuli ekki geta og hafi ekki bolmagn til að stunda eðlilega lánastarfsemi fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni. Samt er á bls. 7 í þeirri skýrslu sem við ræðum hér samhliða þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun talað um aukna samvinnu opinberra sjóða sem vinna að eflingu atvinnulífsins, m.a. er Byggðastofnun nefnd og taldir upp nokkrir aðrir sjóðir sem geti sameinast um átak til atvinnusköpunar. Vissulega er það góðra gjalda vert en ég hygg að Byggðastofnun sé þannig í stakk búin nú um stundir að hún hafi ekki mikið fjármagn til lánveitinga eða styrkveitinga. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki eigi hið snarasta að reyna að bæta úr þeim vanda sem snýr að Byggðastofnun í lánveitingum og styrkveitingum til að hún standi undir þeim verkefnum sem henni hafa verið falin.

Undir lið 2 segir í skýrslunni að ábyrgðin á framkvæmd sé á vegum Byggðastofnunar sem er eins og við vitum með litla fjármuni og hefur ekki að mínu viti eins og staðan er í dag mikla möguleika til að takast á við sín verkefni. Þess vegna held ég að það verði að beina því til hæstv. ráðherra í þessari umræðu að fyrr en seinna verði að taka á vanda Byggðastofnunar, ef stofnunin á að geta þjónað þeim verkefnum sem henni eru falin og því að að styrkja og efla landsbyggðina.

Í byggðaáætluninni er vikið að ýmsum áhugaverðum hlutum og ég ætla sérstaklega að staldra við samgöngurnar. Ég held að það sé ákaflega nauðsynlegt að við gerum mikið átak í því að bæta samgöngur hér á landi. Nánast allir flutningar eru komnir á þjóðvegi landsins, en ríkisstjórnin hefur samt dregið úr framkvæmdum þrjú ár í röð í vegamálum um tæpa 2 milljarða. Það stendur hins vegar til að setja verulegt fé í þau á árinu 2007. Á kosningaárinu, hæstv. ráðherra. Ha, ha, ha. (Gripið fram í: Er það ekki gleðilegt?) Gaman, gaman. Ja, það skyldi nú vera að það væri gleðilegt. (Gripið fram í: Já.) Ég held að það sé mjög gleðilegt ef svo fer að þau útboð sem gerð verða og boðið verður í af verktökum verða á því verði að við fáum sem mest fyrir fjármunina. Við höfum verið að fá tilboð eins og í Reykjanesbraut á rétt rúmlega 70% kostnaðarverðs. Það bendir ekki til þess að verktakarnir hafi ofboðslega mikið að gera þegar þeir gera svo góð tilboð. Ég spyr: Þegar búið verður að spýta inn þessum 7–8 milljörðum til viðbótar á árinu 2007, munum við þá nýta það fé eins vel og við hefðum getað gert víða á landsbyggðinni á þeim árum sem við höfum frestað framkvæmdum? Munum við fá sams konar tilboð? Það á eftir að koma í ljós. Mun það mikla fé sem menn hyggjast setja inn á kosningaárinu 2007 nýtast okkur á þann hátt sem eðlilegt getur talist? Það er ekki hægt að sýna fram á að það sé mikil þensla í vegaframkvæmdum vítt og breitt á landsbyggðinni. Tilboðin benda ekki til þess.