132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:19]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi alls ekki látið þau orð falla að ég teldi að Byggðastofnun væri handónýt stofnun. Ég hvatti einmitt til þess að starfsemi hennar yrði efld, m.a. með því að láta hana hafa aukið fé svo að hún gæti farið í styrkveitingar, einmitt á svæðum þar sem atvinnulífið er aumt og þar sem kannski eru ekki til miklir fjármunir í heimabyggð til að stofna til nýs og öflugs atvinnureksturs. Þangað þarf auðvitað að veita styrki.

Það gæti verið gott verk að taka það upp að Byggðastofnun gæti veitt styrki á móti því sem kemur frá ríkinu varðandi vaxtarsamninga og annað slíkt. Á mörgum stöðum geta fyrirtæki það ekki og á það benti ég.

Ég fagna því ef Byggðastofnun hefur á undanförnum missirum veitt ný lán og að starfsemin þar sé komin á skrið á nýjan leik. Við vitum jú í hvaða erfiðleikum Byggðastofnun lenti og lýsti því þá yfir að hún mundi stöðva lánveitingar.

Ég tel að eitt það besta sem við getum gert á landi hér sé að efla og styrkja vegakerfið, stytta vegalengdir og koma vegunum sem mest á láglendi. Um þetta höfum við flutt sérstakt þingmál í Frjálslynda flokknum þar sem við höfum lagt til að einkum verði horft til þess að fara ofan af fjöllunum og undir þau. Ég hygg að eftir því sem fleiri Íslendingar fái að kynnast þeim gæðum sem felast í að fá að aka í gegnum jarðgöng, hvort sem þau eru fyrir austan, vestan, undir Hvalfjörð eða annars staðar á landinu, muni þeir átta sig á því að jarðgangagerð sem við munum stofna til er varanleg framkvæmd sem við búum að til áratuga og árhundruða. Við fáum ekki betri lausnir á fjöllóttu landi þar sem oft geta verið harðir vetur en að komast í gegnum fjöllin og undir fjallvegina.

Ég held að okkur, hv. þm. Drífu Hjartardóttur, greini ekki mikið á í þeim efnum.