132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:51]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það hreint út að mér líkaði ekki þessi tónn í ræðu hv. þingmanns. (SigurjÞ: Þetta er bara sannleikurinn.) Hv. þingmaður talaði hér um íbúa við utanverðan Eyjafjörð eins og þeir væru fólk sem væri að sníkja peninga, betla peninga. Hann talar um smáverkefni á borð við ferðaþjónustu og skíðavæði á viðkomandi stöðum. Ég held að hv. þingmaður ætti aðeins að hugsa sinn gang. Þetta eru öflug byggðarlög sem skapa íslenska þjóðarbúinu hundruð milljóna í þjóðartekjur með útflutningi sínum á sjávarafurðum m.a. Hv. þingmaður talar eins og allt sé í rjúkandi rúst í viðkomandi byggðarlögum. Fólk reynir að horfa fram, halda áfram í viðkomandi byggðarlögum, m.a. með því að byggja upp (Gripið fram í.) menntun á svæðinu og fleira mætti nefna í þeim dúr en sá tónn sem kom fram í máli hv. þingmanns héðan úr ræðustól í garð íbúa á viðkomandi (Gripið fram í.) stað er ekki til eftirbreytni.