132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:54]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þingmann einfaldrar spurningar, hvernig til hefði tekist um framkvæmd síðustu byggðaáætlunar. Hann svaraði þannig að mannanna verk væru ekki fullkomin, og það er rétt. Ég held að hæstv. byggðamálaráðherra ætti að hafa það vel í huga.

En hins vegar stendur eftirfarandi í skýrslunni um það hvernig til hafi tekist, með leyfi forseta :

„Hins vegar kemur einnig fram það sjónarmið að þrátt fyrir að markmið byggðaáætlunar séu góð, hafi nokkuð skort á að þeim hafi verið fylgt eftir með framkvæmdum.“

Síðan kemur upptalning eins og í Idol-inu. Á Vesturlandi kemur fram það sjónarmið að hlutur Vesturlands í byggðaáætlun hafi verið lítill. Sama sögðu Vestfirðingar. Á Norðurlandi vestra er kvartað yfir því. Í Þingeyjarsýslum er sömuleiðis kvartað yfir því. Af svörum á Suðurlandi kemur fram að Vestmannaeyingar kvarta yfir því og sveitarfélög á Reykjanesi kvarta einnig yfir þessu. Samband íslenskra sveitarfélaga kvartar líka yfir þessu.

Virðulegi forseti. Dómurinn sem Byggðastofnun ritar í þessa skýrslu er á þann veg að byggðaáætlun fær falleinkunn vegna þess að talað er um að þrátt fyrir góð markmið hafi framkvæmdin verið frekar rýr.