132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:02]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Úr því að allt er svona skýrt hjá hv. þingmanni þá ætla ég að spyrja: Hvers vegna er verið að semja um álver í Hafnarfirði úr því að þetta á að fara norður? Hvernig stendur á því? (Iðnrh.: Það er Reykjavíkurlistinn.) Er það ekki Reykjavíkurlistinn? (Gripið fram í: Er það ekki Alfreð bara?) Mér skildist það áðan að það væru stjórnvöld sem réðu einhverju hér um. Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann. Hann talar hér um að ríkisstjórnin, sem hann styður, ræki nútímabyggðastefnu. Hvernig stendur á því að þessi byggðastefna hefur komið út sem eyðibyggðastefna allan tímann sem þessi ríkisstjórn hefur setið? Byggðirnar hafa verið að hopa um allt land. Þegar hæstv. ráðherra er að vitna hér í fjölgun á landsbyggðinni þá er hún að taka með fjölgun á höfuðborgarsvæðinu. Það er verið að taka með fjölgun sem orðið hefur í Árborg og uppi í Borgarfirði, sem hefur ekkert með landsbyggð að gera í raun og veru. Þetta er áhrifasvæði höfuðborgarsvæðisins. Nánast eina fjölgunin úti á landi er á Akureyrarsvæðinu og búið.