132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:03]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eyðibyggðastefna. Hvílíkur bölmóður hjá hv. þingmanni. Talar um að eini staðurinn á landinu þar sem fyrirfinnist einhver fólksfjölgun á landinu sé Akureyri. Akranes og Borgarnes eru í kjördæmi hv. þingmanns (Gripið fram í.) — hv. þingmaður á reyndar eftir að halda ræðu hér á eftir — en það er nú þannig að ríkisstjórnin hefur verið að einbeita sér að kjördæmi hv. þingmanns. Það er búið að gefa út yfirlýsingu um að opinberum störfum verði fjölgað um 20–30 í Húnavatnssýslum á næstu missirum. Hæstv. iðnaðarráðherra sagði að staðinn yrði vörður um starfsemi Byggðastofnunar á Sauðárkróki. Það er búið að reisa háskólasetur á Vestfjörðum og það er búið að gera vaxtarsamninga við öll þessi svæði, eða er a.m.k. í undirbúningi. Svo talar hv. þingmaður hér um eyðibyggðastefnu. Ég hef ekki heyrt að Samfylkingin hafi komið með neinar raunhæfar tillögur. Ég gat ekki heyrt neinar raunhæfar tillögur, t.d. ekki í ræðu hv. formanns Samfylkingarinnar hér fyrr í dag.