132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:05]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mig ekkert vera minni landsbyggðarmann en hv. þm. Jóhann Ársælsson. Mér stendur ekki á sama um hvernig þróun byggðar hefur verið hinum dreifðu byggðum á umliðnum árum. Ég hef aftur á móti verið að benda á að margt horfir til betri vegar. Hv. þingmaður vill einfaldlega ekki sjá þau góðu verk sem ríkisstjórnin hefur verið að beita sér fyrir. Hv. formaður Samfylkingarinnar talaði t.d. um vaxtarsamningana sem eitthvert tískuorð, þegar stjórnvöld eru að reyna að beita sér fyrir því að kalla saman hagsmunaaðila í viðkomandi byggðalögum, stærri og smærri fyrirtæki, félagasamtök, sveitarstjórnir og mynda þannig öfluga heild til að sækja fram. Þá er talað um að það sé eitthvert tískuorð. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Eftir þessa umræðu og þann málflutning sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa komið hér fram með tel ég stefnu Samfylkingarinnar harla léttvæga (Forseti hringir.) í byggðamálum.