132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:24]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ákaflega stoltur af mínum flokksformanni sem kom hér og tók okkar fyrstu ræðu fyrir hönd Samfylkingarinnar í umræðu um byggðamál. Ég var mjög stoltur af því sem þar kom fram. Það sýnir áherslur Samfylkingarinnar í byggðamálum. Ég tek eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra er frekar fúll yfir því frumvarpi sem ég sagði að yrði dreift hér á næstu dögum, þar sem við tökum málaflokkinn frá iðnaðarráðuneytinu og færum hann yfir í forsætisráðuneytið. Leggjum það til. Hvers vegna skyldi það vera gert? Jú, vegna þess að við sjáum að í síðustu byggðaáætlun eru stundum átök milli ráðuneyta og þau vinna ekki alltaf í takt. Dæmi um það er t.d. endurgreiðsla námslána. Fyrrv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, sagði einfaldlega í svari við fyrirspurn minni að honum kæmi þetta nánast ekki við og hann væri ekkert að gera í málinu, þrátt fyrir að það væri sett inn í byggðaáætlun.

Virðulegi forseti. Ýmislegt annað sagði hæstv. ráðherra — henni var greinilega mikið niðri fyrir — um þann vitnisburð sem ég hef gefið um það sem ekki hefur verið gert. Má ég minna á að ég er ekki boðberi þeirra tíðinda, þau berast frá fólkinu í landinu sem fær um þessar mundir stórhækkun á raforkureikningum vegna kerfisbreytingar í raforkumálum. Eigum við að spyrja íbúa í Súðavík eða á Raufarhöfn hvernig staðan hjá þeim er núna og áður? Það var heldur ekki ég sem bar þau tíðindi til landsmanna að laxeldisfyrirtæki í Mjóafirði væri að loka vegna hás raforkukostnaðar. Það er heldur ekki ég sem segi, virðulegi forseti, að byggðamálaráðherra hafi gefist upp við að gera eitthvað í flutningskostnaði vegna þess að samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, stoppi það.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað styðja síðustu byggðaáætlun ef ýmislegt meira hefði verið í henni sem tekur á því sem ég hef gert hér að umtalsefni. Við hefðum getað sótt eitthvað til nágranna okkar hér á Norðurlöndum um aðgerðir í byggðamálum, það ætti (Forseti hringir.) að vera númer 1, 2 og 3.