132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:28]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra talar um að íbúum landsbyggðarinnar líði betur og ég vona það svo sannarlega. En ég spyr: Getur verið að fólki líði ekki betur þegar það fær raforkureikninginn inn til sín, eins og í Súðavík og á Raufarhöfn eða bændur landsins? Má ég minna á, virðulegi forseti, að hámark til niðurgreiðslu til rafmagnshitunar var lækkað af hæstv. ráðherra úr 50.000 kílóvattsstundum niður í 35.000? (Iðnrh.: Ég hækkaði það aftur.) Og hækkaði aftur í 40.000. Ég vildi bara heyra hæstv. ráðherra segja þetta. Mér finnst svo ánægjulegt að heyra hana bæta við 5.000 kílóvattsstundum, úr 35 upp í 40. Má ég þá spyrja, virðulegi forseti: Hvað standa þá margar kílóvattsstundir eftir frá 50.000 kílóvattsstundum niður í 40.000? Eru það 10.000? (Iðnrh.: Þú hlýtur að geta reiknað þetta sjálfur.) Já, það er hárrétt, það eru nefnilega 10.000 kílóvattsstundir sem niðurgreiðsluhlutfallið var lækkað um af hæstv. ráðherra. Það er stærsti hlutinn í stórhækkuðum upphitunarkostnaði íbúa í dreifbýli, bænda og þeirra sem búa í litlum byggðarlögum. Eigum við að fara aðeins yfir upphitunarkostnaðinn og rafmagnsreikninginn í Súðavík á móti því sem er á Ísafirði? En ég er viss um að hæstv. ráðherra getur fundið út þokkalegt meðaltal. Alveg eins og maður sem setur aðra löppina ofan í 4 stiga heitt vatn og hina í 38 stiga heitt. Þá er þokkalegt meðaltal af því. (Gripið fram í: Hvað er meðaltalið?) En það er bara ekki svoleiðis. Menn lifa nefnilega ekki af meðaltölum, þeir sem þurfa að borga háu reikningana, virðulegi forseti. Það er nefnilega þannig. (Iðnrh.: Ég held að hv. þingmaður sé að fara á taugum.)

Það er auðvitað líka rétt, virðulegi forseti, sem kemur fram hjá atvinnurekendum sem reka laxeldisfyrirtæki, fyrirtæki sem borga reikninga eins og þeir voru að segja okkur frá í Mjóafirði — og ef til vill eiga önnur dæmi eftir að koma upp — sem hafa stórhækkað. Sú hækkun gerir það að verkum að þessi atvinnurekstur er að leggjast af. Sú markmiðslýsing var þó í gömlu byggðaáætluninni að það ætti að efla fiskeldið. (Forseti hringir.) Er þetta að efla fiskeldið, virðulegi forseti? Ég held ekki.