132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:31]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er farinn að kannast við tóninn hjá hv. þingmanni þegar hann ræðir byggðamál. Ég man eftir sama tóni hjá forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar þegar hún fór um Austurland og Norðurland fyrir síðustu kosningar og hv. þingmaður teymdi forsætisráðherraefnið á eftir sér og hvíslaði að því hvað það ætti að segja. Þá var söngurinn alls staðar hinn sami: Við skulum mismuna fyrirtækjum og mönnum, við skulum láta fólk í Norðausturkjördæmi borga lægri skatta en fólk í öðrum kjördæmum. Þá var talað um að hinir ágætu frambjóðendur vildu láta endurgreiða fyrirtækjum í Norðausturkjördæmi flutningskostnað fram yfir það sem gert yrði í öðrum kjördæmum. Hv. þingmaður birti flennistóra mynd af sér og flutningskostnaðinum á Ráðhústorginu á Akureyri til að minna á að hann vildi lækka flutningskostnaðinn.

Nú vill svo heppilega til að hv. þingmaður hefur lýst því yfir að hann og flokkur hans ætla að flytja frumvarp um byggðamál á næstunni. Ég vona að þar komi fram nákvæmlega með hvaða hætti hv. þingmaður ætlar að mismuna landsfjórðungum í skattamálum. Hv. þingmaður hefur sagt við mig á fundum að hann sé maður framkvæmda og hann sé maður orðsins en ég sé maður hillinga og sé óljós í málflutningi. Nú tekst hv. þingmanni að skýra mál sitt með því að leggja fram með leiðtoga sínum, sem er orðinn — skilst mér á hæstv. byggðamálaráðherra — talsmaður flokksins í byggðamálum, nákvæma útlistun á því hvernig hann ætlar að endurgreiða fyrirtækjum í Norðausturkjördæmi flutningskostnaðinn og hvernig hann ætlar að lækka skattana á íbúa í Norðausturkjördæmi.

Hann bauð sig fram fyrir síðustu kosningar með þau loforð. Það þýðir ekki fyrir hann að vera hér og flagga þeim loforðum nema hann fylgi þeim eftir með þingmáli og sjái svo til hvort hann geti unnið máli sínu fylgi. En það getur enginn greitt atkvæði með frumvarpi sem ekki hefur verið lagt fram á Alþingi. (Forseti hringir.)