132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:38]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf gaman þegar hv. þm. Halldór Blöndal, með ö-i en ekki u-i, ekki Blundal, kemur og ræðir í stuttu andsvari um byggðamál. Þingmaðurinn er kosinn af Norðausturkjördæmi til þings og er 2. þingmaður þess kjördæmis og kemur ekki í umræðu um byggðamál nema í skötulíki eða eins og fluga á vegg sem kemur inn annað slagið, blæs þá svolítið í umræðu um byggðamál og skammar yfirleitt þann sem hér stendur fyrir að færa byggðamál til umræðu.

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður svaraði engu um það hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn stendur í vegi fyrir því að ríkisstjórnin komi inn í aðgerðir til að lækka flutningskostnað til og frá landsbyggðinni og á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn er mesti skattpíningarflokkur sem setið hefur á Alþingi hin síðari ár og formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, er skattakóngur Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn er skattaflokkur Íslands þegar kemur að því að skattleggja atvinnulífið. Tökum dæmi um þungaskattinn sem var orðinn himinhár meðan hann var. Svo koma ráðherrar Sjálfstæðisflokksins með olíugjaldið, sem er líka hækkandi, og hækka skatta.

Virðulegi forseti. Skattarnir flæða út úr ríkissjóði um þessar mundir vegna þess að það berst svo mikið inn. Hvers vegna er t.d. skattheimta ekki lækkuð af flutningastarfsemi? Ég vildi gjarnan heyra hv. þm. Halldór Blöndal nefna það vegna þess að hann var samgönguráðherra í átta ár. Hann lagði m.a. niður strandsiglingar á vegum ríkisins, Skipaútgerð ríkisins, og hækkaði þar með mjög flutningskostnað. Þeir peningar sem runnu til skipaútgerðarinnar þá væru kannski betur komnir núna í útboð á strandsiglingum, eins og ég hef bent á, sem er svipað og útboð á innanlandsflugi eða (Forseti hringir.) útboð í almenningssamgöngum. (Forseti hringir.)

Ég tek eftir því, virðulegi forseti, að hv. þingmaður er farinn úr húsinu og hlaupinn af hólmi.