132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[16:32]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vont ef hv. þm. Birkir Jón Jónsson missir svefn af áhyggjum yfir því hvort formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og hv. þm. Jóhann Ársælsson eigi í illdeilum um sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Það er ekki svo, heldur fer hið besta á með þeim. Eftir því sem ég best veit lagði hv. þm. Jóhann Ársælsson blessun sína yfir þá ræðu sem sífellt er vitnað til og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti á fundi LÍÚ.

Annars legg ég til við hv. þingmann að hann spyrji þá hina sömu þingmenn og hér hafa verið nefndir á nafn um þennan meinta ágreining þeirra á milli.

Ég vænti þess að hv. þingmanni þyki það ekki vont að stjórnmálaflokkur vilji eiga samstarf og vinna með samtökum útgerðarmanna á Íslandi. Ég vænti þess að það sé hið besta mál í huga hans.

Varðandi tryggingagjaldið lögðum við til við fjárhagsáætlunargerð að það yrði hækkað. Það var um litlar 400 millj. sem er að vísu talsvert, og hugsanlega er það rétt metið hjá þingmanninum að þetta hefði lagst þyngra á fyrirtæki á landsbyggðinni en t.d. á Reykjavíkursvæðinu. Ég veit auðvitað að það sem gerðist með tryggingagjaldið þegar stjórnarflokkarnir hækkuðu það um 2,4 milljarða var að það færðist yfir á herðar fyrirtækjanna úti á landsbyggðinni. Það er auðvitað ekki gott mál.

Það þarf að styðja fyrirtæki á landsbyggðinni og það er t.d. alveg hægt að gera (Forseti hringir.) með millifærslum og styrkjakerfi.