132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[16:39]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við eigum að ræða hér byggðaáætlun Framsóknarflokksins, þ.e. þá sem lögð er fram af Framsóknarflokknum. Það er greinilegt að þessi ágæti flokkur sem hefur stundum kennt sig við landsbyggðina leggur nánast enga áherslu á þennan málaflokk lengur. Nánast. Jú, hann prentar upp sömu gömlu skýrsluna og hún er ekki góð. Hún er mjög slæm. Ekki sést hæstv. forsætisráðherra þegar verið er að ræða byggðir landsins. Það kemur á óvart. Ef formaður Framsóknarflokks hefði fyrir nokkrum árum ekki látið sjá sig þegar verið væri að ræða málefni hinna dreifðu byggða hefði mörgum verið brugðið. Nú er sá ágæti maður hins vegar í öðrum verkum, hann er í því að spá og hann er líka í því að ræða um inngöngu í Evrópusambandið. Það er fínna en að tala hér um vanda landsbyggðarinnar eða byggðanna hringinn í kringum landið.

Nei, forsætisráðherrann er í öðru og er jafnvel kominn í þá stöðu að vilja selja aðgang að fiskimiðunum og finnst það vera verkefni dagsins en ekki að ræða hér um málefni byggðanna.

Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að verja löngum tíma í þessa skýrslu sem er endurprentað, herra forseti, vegna þess að við erum búin að ræða hana áður. (Gripið fram í.) Já, í þriðja sinn. Því miður hefur hæstv. iðnaðarráðherra ekki tekið í einu eða neinu tillit til athugasemda, mjög málefnalegra athugasemda sem við í Frjálslynda flokknum höfum borið fram um það hverju væri ábótavant við þessa skýrslu.

Ég held að það þurfi að fara yfir það með hæstv. iðnaðarráðherra hvað „áætlun“ er. Það er eins og að hæstv. ráðherra átti sig bara ekki á því. Áætlun er venjulega það að stefna að ákveðnu marki. Ef maður hins vegar les bæði stefnumótandi byggðaáætlun og skýrsluna kemur ekkert fram um slíkt, það eru engin mælanleg markmið. Ég hef oftsinnis bent hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra á að það verða að vera einhver mælanleg markmið ef menn ætla að vera með einhverja áætlun af viti. Við þekkjum það sem höfum komið að rekstri fyrirtækja og jafnvel stofnana að sett er fram fjárhagsáætlun og svo reyna menn að halda þær og hafa einhver mælanleg markmið. En það kemur ekki fram hér, enda er það kannski lýsandi fyrir áhuga Framsóknarflokksins á þessum málaflokki. Því miður.

Ég verð að segja að ég hef þess vegna ákveðið að leggja fram fyrirspurn í þinginu, og hef gert það, til að hjálpa flokknum að gera næstu byggðaáætlun. Hún er á þá leið að tekið verði saman yfirlit yfir fjölda opinberra starfa. Ég get farið fram á það. Ég mælist til þess að hæstv. fjármálaráðherra taki hendur úr vösum í byggðamálum og taki saman þróun opinberra starfa í byggðum landsins. Þá getur hæstv. iðnaðarráðherra mögulega notað þær tölur til að meta áhrif opinberra starfa á byggðirnar í stað þess að telja hér upp einhver verkefni, flutning á nokkrum tugum starfa í Húnavatnssýslu — sem ég geri þó ekki lítið úr. (Gripið fram í.) Alls ekki. Ég segi að til þess að meta það hve mörg störf hafa verið flutt burtu, m.a. úr Húnavatnssýslum — við höfum orðið vitni að því, m.a. við einkavæðingu á Símanum, og svo kemur eitthvað til baka og annað tekið jafnóðum í burtu — er gott að hafa yfirlit. Það er einmitt það sem á vantar hér. Þetta er bara orðagjálfur sem er varla pappírsins virði frekar en þessir fallegu bæklingar sem kallast vaxtarsamningar. (Gripið fram í.)

Svo er annað. Þegar maður gerir áætlun reiknar maður og leggur niður fyrir sér hvað hún muni kosta. Hér kemur ekki fram hversu mikla peninga eigi að leggja í þetta. Það er fáheyrt. Ég er á því að sveitarstjórnir landsins eigi að mótmæla þessu, sérstaklega þær sem hafa orðið fyrir barðinu á stjórnarstefnu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það er ekki hægt að búa við þetta. Hvers vegna ætli þær geri það ekki? Það er kannski vegna þess að stjórnarflokkarnir koma stundum með brauðmola og gefa til baka, kannski örfá störf.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson minntist á Siglufjörð og tíndi upp nokkra brauðmola sem hann hafði rétt byggðarlaginu. (Gripið fram í.) Já, eða Framsóknarflokkurinn, það afl sem hv. þingmaður styður. (Gripið fram í.) Það var skíðalyftan — hvað ætli hún bjóði upp á mörg störf? Tvö störf þrjá mánuði á ári? (Gripið fram í.) Menn hengja á sig orður fyrir það að hafa veitt einhvern styrk í skíðalyftu. Það kom fram í andsvari. Ekki nóg með, heldur er það talið til tekna að menn fari í viðhald á húseignum í eigu ríkisins. Það er farið í eðlilegt viðhald og byggt lítilræði við húsnæði sem hefur verið starfrækt … Ég heyri á frammíköllum hv. þingmanns að þetta kemur við kaunin á honum. (Gripið fram í.) Ég ætla að vona, herra forseti, að hann gefi mér hljóð til að flytja ræðuna þar sem ég get farið yfir þessar miklu aðgerðir Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í byggðamálum Siglfirðinga. Svo er það minning um gamla tíma, Síldarminjasafnið. Þetta eru afrekin.

Mér finnst þetta ekki mikið. Ég miða við það að búið er að taka af fólkinu á landsbyggðinni réttinn til sjósóknar. Það er alvarlegt mál. Síðan eru í umræðunni talin upp verkefni sem eru búin að vera á dagskrá í meira en áratug, að minnka endurgreiðslur námslána fyrir þá sem búa á landsbyggðinni, að styrkja ferðalög íþróttafólks á landsbyggðinni. Þetta fer aldrei í framkvæmd, því miður, meðan þessir flokkar starfa í ríkisstjórn. Þegar lagðar eru fram tillögur á þingi neita viðkomandi flokkar að veita fjármuni í þessi verkefni sem þeir skreyta sig síðan með þess á milli. Þetta er mjög ómerkilegt.

Það er annað sem er vert að fara yfir. Þegar menn fara út á land og rétta brauðmola eiga allir að krjúpa á kné og þakka. Við sem búum á landsbyggðinni eigum að vera full þakklætis þegar einhver störf koma. Ég spyr Reykvíkinga sem hlýða á mig tala úr þessum ræðustól: Hvað finnst þeim, finnst þeim að þeir eigi að vera fullir þakklætis yfir því að Háskólinn í Reykjavík var settur á stofn? Eiga þeir að vera hér á hnjánum? Nei, þetta er bara eðlileg og sjálfsögð aðgerð, rétt eins og það að Háskólinn á Akureyri og Háskólasetrið á Ísafirði eru eðlileg starfsemi. Menn eiga ekkert að tala um þetta eins og verið sé að færa þessu fólki einhverjar gjafir.

Ég verð að minna á rannsókn frá Bifröst sem sýndi fram á það að skattfé streymdi af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Tæplega 30% af öllu skattfé landsmanna er aflað í dreifbýlinu en einungis 15% er varið þar. Það er ekki eins og að við sem búum á landsbyggðinni séum einhverjir ómagar, alls ekki. Við eigum ekki að líta þannig á.

Svo er annað. Með annarri hendinni er gefið — farið með innheimtu á Blönduós sem er jákvætt — en í sömu mund eru önnur störf tekin. Þá er verið að færa til lögregluumdæmin og alltaf liggur undir að fækka eigi störfum, fækka yfirmönnum, sameina. Fólk á landsbyggðinni er náttúrlega skeptískt á þetta. Er verið að fækka eða spara í Reykjavík? Alls ekki. Við sjáum að frá því að þessi ríkisstjórn komst til valda hafa útgjöld ríkisins aukist um 120 milljarða, 120 þús. millj., á föstum fjárlögum. Þeir fjármunir hafa ekki runnið út á land í miklum mæli. En við munum sjá það þegar við fáum svarið við spurningunni um hvar opinber störf eru staðsett. Það mun þá líka gagnast Framsóknarflokknum við gerð næstu byggðaáætlunar.

Við horfum líka á það hvar verið er að fækka störfum, t.d. reikna ég með að haldið sé aftur af störfum hjá lögregluumdæmunum og þeim slegið saman. Á sama tíma er verið að fjölga víkingasveitarmönnum gríðarlega, búa til einhverja greiningardeild til að rannsaka landráð hjá ríkislögreglustjóra. Svona má lengi telja. Þetta er það sem við horfum upp á.

Ég vil líka nota hluta af ræðutíma mínum í annað. Það hefur verið kvartað undan því að við í stjórnarandstöðunni leggjum ekki fram neinar tillögur. En það eru ákveðnar skýringar á því. Manni blöskrar að svona sé lagt fram, svona hræðilegar skýrslur, og þá ætla ég að benda á eina tillögu sem er að finna í stefnuskrá Framsóknarflokksins — ef þau framkvæmdu eitthvað af henni, t.d. að strandjarðir fengju útræðisrétt sinn á ný. Ég spurði hæstv. landbúnaðarráðherra hvort einhver von væri á því, og hann brást nánast illur við þegar ég vildi fá afstöðu hans á hreint. Bara það atriði, að strandjarðir fengju útræðisrétt á ný, mundi bæta hag dreifbýlisins miklum mun meira, fullyrði ég, en t.d. þessi vaxtarsamningur Vestfjarða sem er voðalega lítið annað en orðagjálfur um vaxtarklasa og slíkt. Mig minnir að honum hafi fylgt 40 millj. á nokkrum árum sem átti síðan að hækka eitthvað í framhaldinu. (Gripið fram í.) Já, eftir umræðu um að þetta væri ekki neitt neitt.

Einnig er kominn tími til þess að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fari yfir og skoði tillögur okkar hvað varðar fiskveiðistjórn. Ég vonast til þess að hv. þm. Birkir Jón Jónsson lesi stefnuskrá Frjálslynda flokksins í fiskveiðimálum því að þar getur hann fundið tillögur sem virka, þar sem ungir menn á Siglufirði geta komist í útgerð á ný í stað þess að ef menn ætla nú í útgerð þurfa þeir annaðhvort að gerast leiguliðar eða reiða fram t.d. 150 millj. ef þeir vilja veiða 100 tonn. Þetta er það sem Framsóknarflokkurinn býður upp á og við í Frjálslynda flokknum erum alveg tilbúnir til að vinda ofan af þessari vitleysu, enda er það þjóðarhagur. Það er ekki bara hagur fólksins í dreifbýlinu að snúa við dæminu, heldur er það hagur þjóðarinnar allrar. Samdráttur á þessum svæðum skapar einnig vandamál í Reykjavík og margir á höfuðborgarsvæðinu eru farnir að leggja eyrun við þegar rætt er um byggðamál. Margir koma frá þessum svæðum og þeim þykir sárt hvernig komið er fyrir gamla byggðarlaginu sínu. Þetta er mál sem varðar þjóðina, menningu hennar, og það er sárt að vita til þess að Framsóknarflokkurinn sinni því ekki betur en svo að senda sömu skýrsluna enn og aftur í umræðuna.

Við höfum ýmis tæki ef við viljum. Við þurfum að skoða samkeppnisstöðu fyrirtækja. Við höfum t.d. rætt um samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðarins, tillögur liggja fyrir og það er ekkert annað að gera en að hrinda þeim í framkvæmd. Það er það sem vantar, raunverulegar tillögur. Það er ekki rétt að vera að hækka rafmagnið á fólkinu úti á landi sem stendur hvað verst. Því eru sendir háir reikningar. Hér reynir hæstv. iðnaðarráðherra alltaf að drepa umræðunni á dreif um hækkað rafmagnsverð á landsbyggðinni með því að tala um hækkun hér og lækkun þar. Það er einfaldlega ómerkilegt, herra forseti. Ósk um utandagskrárumræðu um rafmagnsverð til húshitunar á landsbyggðinni hefur legið fyrir, og svo er sagt að beðið sé eftir umræðu um einhverja skýrslu, skýrslu sem er ófullkomin, nánast eins og þessi, og segir takmarkað. Það er sárt að horfa upp á þetta.

Það er hægt að snúa þessu við og það verður gert með því að skipta um flokka í stjórn. Við höfum 10 ára reynslu af þessum flokkum og ég spyr fólk úti á landi: Er hún góð? Nei, segir það, hún er alls (Forseti hringir.) ekki góð.