132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[16:54]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Í dag hafa staðið yfir umræður um þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun og hér á Alþingi hefur verið mikil samstaða um að hafa þyrfti einhvers konar stefnumótandi byggðaáætlun í gildi. Alþingismenn hafa í raun og veru staðið saman um þessa hugmynd og tekið hana til umræðu, nokkrum sinnum reyndar. Árangurinn af þeirri stefnumörkun sem hefur verið sett í þessar áætlanir hefur því miður ekki verið eins góður og menn hafa vonast til. Enda eru þessar áætlanir, og það er kannski helsti gallinn á þeim, ekki útfærðar og það er ekki fjármögnun á bak við þær hugmyndir sem eru settar fram í þessu plaggi.

Ríkisstjórnin sem situr hefur talað mikið um byggðamál og hælt sér, og þingmenn sem styðja hana hafa hælt sér mikið af því að þeir væru að gera mikið í byggðamálum. Samt hefur landsbyggðin verið á undanhaldi nánast alls staðar á landinu þar sem hægt er að tala um að við séum komin út á dreifbýlissvæðin og þau einu svæði sem hafa haldið sínu eða aðeins náð vopnum sínum eru þá Eyjafjarðarsvæðið og þau svæði sem næst liggja stóriðjuframkvæmdunum á Austurlandi. Að öðru leyti hefur landsbyggðin verið á undanhaldi.

Ég segi þetta vegna þess að ég tel ekki þau svæði sem liggja næst höfuðborgarsvæðinu með þegar verið er að tala um byggðaáætlanir, enda hafa ákvarðanir um byggðastuðning ekki beinst að þessum svæðum að neinu marki, þeim sem liggja næst höfuðborgarsvæðinu, í Borgarfirði og á Suðurlandinu. Það er þess vegna ekki rétt sem hæstv. ráðherra sagði hér, það er ekki rétt að koma með það skýringalaust inn í umræðuna að fólki sé farið að fjölga á landsbyggðinni. Það er mjög villandi að tala með þeim hætti. Það hefur enda komið fram í svörum við fyrirspurn frá t.d. hv. þm. Kristjáni Möller, bara fyrir nokkrum dögum, hvernig íbúaþróunin hefur verið á landsbyggðinni á undanförnum árum. Þar kemur þetta mjög skýrt fram. Ég ætla ekki að fara yfir þær tölur hér, það er ekki til þess tími, en þær bera það með sér að landsbyggðin er öll nánast á undanhaldi að fráteknum þeim svæðum sem ég nefndi hér.

Hvers vegna er þetta svo? Það eru miklar atvinnuháttabreytingar í landinu. Þéttbýlissvæðin í kringum landið, þ.e. sjávarbyggðirnar urðu til og blómguðust fyrst og fremst vegna þess að menn sóttu sjó. Breytingar á sjávarútvegsstefnunni hafa valdið því að veiðirétturinn hefur þjappast saman á fáa staði, miklu meira en hann hefur nokkurn tíma gert áður. Verðlagið á veiðirétti hefur orðið svo hátt að menn hafa ekki getað stofnað ný fyrirtæki á stöðum þar sem veiðirétturinn hefur farið burtu. Þess vegna eru til litlu sjávarbyggðirnar sem svo sem hafa lifað af í gegnum tíðina. Þegar menn vantaði vinnu á þessum stöðum stofnuðu þeir sér útgerðarfyrirtæki, keyptu bát og fóru að gera út. Þetta gerist ekki lengur. Þess vegna eru þessar litlu sjávarbyggðir, margar hverjar, á undanhaldi, það eru mjög takmarkaðir möguleikar í þessum aðalatvinnuvegi. Síðustu missirin hefur hann reyndar staðið afar illa vegna gengis, þessa gríðarlega háa gengis sem menn geta svo sem deilt um af hverju er svona hátt en það er kannski ekki aðalatriði málsins. Gengið er gríðarlega hátt og það eru ekki líkur á því að það breytist á næstunni. Sjávarútvegurinn, sérstaklega fiskvinnslan, úti um landið er þess vegna í miklum vanda og það er ekki líklegt annað en að við sjáum gjaldþrot og lokanir á næstu missirum og það mun auka þessa byggðaumræðu sem hefur þó verið ærin fram að þessu.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að hann teldi að kominn væri tími til að leyfa erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi. Ég ætla að nota hluta af tíma mínum til að tala um þessi mál einfaldlega vegna þess að formaður iðnaðarnefndar hefur kallað mjög eftir því hvaða stefnu Samfylkingin hafi í sjávarútvegsmálum. Sú stefna liggur fyrir og er alveg skýr. Hún felst í því að við eigum að gæta eignarhalds þjóðarinnar á þeirri auðlind og að það verði sett í stjórnarskrá. Við deilum ekki um það við stjórnarflokkana að sett verði í stjórnarskrá ákvæði um eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni.

Það sem stjórnarliðar virðast ekki hafa áttað sig á er að auðvitað mun það fylgja, setji menn í stjórnarskrána að þjóðin eigi einhverjar auðlindir, þjóðarauðlindir, sjávarauðlindir, orkuauðlindir sem eru almannaeign og fleiri auðlindir. Ég vísa til umfjöllunar auðlindanefndar um þetta þar sem fyrir liggja tillögur um hvernig með þær auðlindir skuli farið. Þá þurfa auðvitað að vera einsleitar aðferðir við að koma nýtingu auðlindanna í hendur þeirra sem fá þau verkefni í hendurnar að nýta auðlindir. Þá geta menn ekki bæði einkavætt auðlindina og haft hana í stjórnarskránni sem þjóðarauðlind. Það eru röng skilaboð að gefa til kynna að það sé hægt.

Stefna okkar hefur verið alveg skýr í þessu. Við teljum að gæta eigi eignarhalds þjóðarinnar og að hið opinbera og alþingismenn fyrst og fremst eigi að sjá til þess að eignarhaldsins verði gætt fyrir hönd þjóðarinnar. Það er hægt að gera. Menn þurfa þess vegna sátt við þjóðina um þá leið sem farin verður, fyrst og fremst við þjóðina, en sáttin verður líka að vera við útgerðarmenn í landinu. Þeir verða líka að geta sætt sig við þær aðferðir sem verða notaðar og þann tíma sem gefa þarf sér til þess að aðlögun verði að þeim nýju aðferðum sem menn beita, því nýja umhverfi sem menn þurfa að vinna í. En niðurstaðan getur aldrei orðið önnur en sú að hið opinbera verði að gæta eignarhaldsins fyrir hönd þjóðarinnar ef þetta á að verða þjóðarauðlind.

Það á við um allar auðlindir. Ég geri ekki upp á milli þeirra. Ég er sammála LÍÚ-forustunni sem hefur kallað eftir því að menn hafi sömu aðferðir uppi við nýtingu þjóðarauðlinda hvort sem þær heita orkuauðlindir eða auðlindir sjávar. Þess vegna þurfa menn auðvitað að vanda sig og spara sér pólitísk upphlaup í þessum málum og endalaus köll á hvað aðrir vilja. Við höfum sett það skýrt fram hvað við viljum í þessu. En stjórnarflokkarnir, hvað hafa þeir sagt? Þeir hafa sagt að bæði væri hægt að einkavæða auðlindina og hafa hana fyrir þjóðarauðlind. Er það skýr stefna? Nei, það er ekki skýr stefna. Það eru röng skilaboð til þjóðarinnar og fyrir neðan allar hellur að bjóða upp á málflutning af því tagi.

Ég ætla ekki að fara að skammast yfir því vegna þess að ég vonast til að menn komist til ráðs og setjist niður, vegna þess að endurskoðun stjórnarskrárinnar er afar mikilvægt verkefni og við þurfum að ná víðtækri pólitískri sátt um þá endurskoðun. Þar þurfum við að leita viðunandi leiða fyrir þjóðina, fyrir atvinnuveginn og alla þá framtíð sem við getum séð fyrir okkur í meðferð auðlinda. Við getum ekki boðið börnum okkar og barnabörnum upp á það að við köstum auðlindum landsins bara eins og silfri Egils yfir atvinnulífið og láta það fara hvernig sem vill.

Er það trúverðugt þegar menn koma í ræðustól á Alþingi hver eftir annan og aðeins eitt sem þeir eru sammála um: Það er ekki hægt að hleypa erlendum aðilum með fjárfestingar í sjávarútveginn. Niðurstaðan er að það sé ekki hægt. Hvers vegna? Vegna þess að fyrirkomulagið sem menn hafa komið á er með þeim hætti að þeir sem styðja það og vilja hafa það þannig þora ekki að leyfa erlendum aðilum að koma nálægt sjávarútveginum á Íslandi. (Iðnrh.: Þeir eru hérna alveg á fullu.) Hæstv. iðnaðarráðherra kallar fram í: Þeir eru hér á fullu. En hæstv. iðnaðarráðherra var í salnum þegar menn héldu ræðurnar sem við höfum oft heyrt um að það megi ekki vegna — vegna hvers? Vegna þess að arðurinn af auðlindinni rennur í hendur þeirra sem eiga kvótann. Ef þeir eignaraðilar verða erlendis mun arðurinn renna þangað. Það er ekki að gæta þjóðarauðlindarinnar að hafa fyrirkomulagið með þeim hætti.

Ég ætlaði að tala um byggðaáætlunina og ég tel reyndar að það að viðhalda byggð í landinu sé verkefni sem hið opinbera eigi að koma að með þeim hætti öflugustum, að sjá til þess að almennilegar samgöngur séu, gott heilbrigðiskerfi og menntakerfi, að grunngerðin sé í lagi og þá muni koma í ljós hvar fólk telur best að búa og reka fyrirtæki í landinu. Þarna hefur gríðarlega mikið vantað upp á og metnað vantað. Það er ótrúlegt að hlusta t.d. á hæstv. samgönguráðherra koma og halda sömu ræðuna endalaust um afrekin í þessum málum. Hver eru afrekin? Að enn eru nánast sambandslaus svæði á landinu þar sem fólk býr. Það er ekki nothæfur vegur á milli byggðarlaganna og ekki nothæfur vegur til að koma afurðum frá sér eða rækta það samband sem nauðsynlegt er við höfuðborg landsins. Það eru ekki afreksverk á 21. öld að svo skuli hátta til í þessu forríka samfélagi. Auðvitað er byggðin á undanhaldi þar sem fólk getur ekki notið þeirrar þjónustu sem hægt er að njóta almennt á landinu, á höfuðborgarsvæðinu, og þar sem betur er búið að fólki en á þeim stöðum sem ég vísa til.

Eitt sem er nefnt í skýrslunni hefði ég gjarnan viljað hafa meiri tíma til að tala um og það er efling sveitarfélaganna vegna þess að efling þeirra er að mínu viti eitthvert öflugasta tækið sem hægt er að nota til að styrkja byggðina í landinu. Þar fór félagsmálaráðherra og ríkisstjórnin í ferð sem hefði betur verið ófarin, ferð sem eyðilagði möguleikana á því að sameina sveitarfélögin og gera þau sterkari að mörgu leyti, komu í veg fyrir möguleika sem voru fyrir hendi og hefði verið hægt að nýta, því sameining og styrking sveitarfélaganna hefði getað orðið miklu meiri en stefnir í að hún verði. Það að flytja verkefni til sveitarfélaganna, styrkja þau og sjá til þess að verkefni frá hinu opinbera fari til þeirra er kannski það sem — að frádregnum samgöngubótum — gæti virkað allra best. Þetta er því miður svona og skilningur manna í sölum Alþingis á sveitarfélögunum og því verkefni sem hefði átt að leysa í sölum Alþingis er svo takmarkaður að það er með ólíkindum enda þurfa menn ekki annað en að litast um og sjá skipulagsslysin allt í kring á höfuðborgarsvæðinu og þau sem eru í aðsigi annars staðar til þess að sjá að hér í sölum Alþingis hafa menn ekki passað sína plikt.