132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:10]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Á margan hátt hefur verið athyglisvert að fylgjast með þeirri umræðu sem hefur farið fram í dag um annars vegar skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005 og hins vegar tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009.

Ég verð þó að segja í byrjun að að hluta til leiðist mér hversu áberandi hinn neikvæði þáttur málanna verður í umræðunni vegna þess að við eigum, að minni hyggju, ekki að ræða þannig um málefni landsbyggðarinnar. Útgangspunkturinn á að sjálfsögðu alltaf að vera sá að ýmis lífsgæði eru á landsbyggðinni fram yfir það að hafa búsetu t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Það eru auðvitað hlutir sem við eigum að leggja áherslu á. Við eigum að leggja áherslu á að það er alveg sérstakur lífsstíll að búa á landsbyggðinni, lífsstíll sem við eigum að gefa gaum og gera svolítið mikið úr vegna þess að a.m.k. við sem höfum ákveðið að búa á landsbyggðinni metum þann lífsstíl ofar þeim lífsstíl að búa t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Það á að gera lítið úr hvorugum lífsstílnum því það er val fólks og það er kannski grundvallaratriðið að þetta val fólks á að vera þannig að opinberir aðilar reyni að jafna sem best möguleika fólks til að velja hvorn lífsstílinn sem það kýs en sé ekki með þvingandi aðgerðir til að neyða fólk til að gera það sem það síður vill.

Við verðum samt sem áður að passa okkur á því, þó að við leggjum áherslu á hina jákvæðu þætti, að halda okkur við raunveruleikann, því ekkert gagn er að því ýmist að gylla hlutina eða fara fram hjá staðreyndum og stöðu málsins eða skapa væntingar sem ekki er innstæða fyrir. Það er heldur ekki gott. Við þurfum því að reyna að stilla umræðuna á þeim nótum að við séum jákvæð en um leið raunsæ. Ég get því miður gagnrýnt flesta ræðumenn í dag fyrir að hafa ekki náð þessu. Ég vildi því byrja á þessu vegna þess að ég ætla að gera tilraun til að ná þeirri línu en hún er mjög vandmeðfarin og óvíst að mér takist það. Ég mun hins vegar gera tilraun til þess. Þess vegna byrjaði ég á að leggja áherslu á, vegna þess að mér finnst það mikilvægt, að lífsgæði mörg hver á landsbyggðinni eru þess eðlis að þau eru að minni hyggju það mikils virði að fólk hefur valið þann lífsstíl að búa á landsbyggðinni þrátt fyrir að ýmislegt geri það erfiðara en að búa hér. Ég ætla ekki að tíunda það allt saman vegna þess að við höfum undir ákveðin plögg sem við erum að ræða. En ég vildi sem sagt leggja höfuðáherslu á þetta í byrjun.

Það vakti hins vegar athygli mína að hæstv. ráðherra fjallaði ekkert um annað dagskrármálið, þ.e. skýrsluna fyrir árin 2002–2005. Hæstv. ráðherra hefur væntanlega metið það svo að fyrri umræða um ansi svipuð plögg hafi verið nægjanleg og ekki þurft að endurtaka það og er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig. Ég hefði vænst þess samt sem áður að eitthvað yrði um það fjallað vegna þess að auðvitað getum við lært eitthvað af því hvernig til hefur tekist með framvindu byggðaáætlunar fyrir síðasta tímabil þegar við veltum fyrir okkur því næsta. Augljóslega kalla ákveðnir þættir á það og ég vil nefna dæmi.

Í skýrslunni efst á bls. 4 er vitnað í texta frá Byggðastofnun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Bent var á að ekki eru settir fram í byggðaáætluninni mælikvarðar sem hægt sé að bera árangur við. Sömuleiðis kemur fram sú skoðun að byggðaáætlun sé til of skamms tíma og þyrfti að vera t.d. til 12 ára líkt og t.d. samgönguáætlun. Stofnunin tekur undir bæði þessi sjónarmið.“

Frú forseti. Stofnunin, eins og ég nefndi áðan, sem hér á í hlut er Byggðastofnun. Þess vegna hefði ég vænst þess að í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 hefði að einhverju leyti verið tekið tillit til sjónarmiða stofnunarinnar. En því miður virðist það ekki hafa verið gert. Ég vil nota tækifærið og taka undir báða þessa þætti, líkt og Byggðastofnun gerir. Ég held að það sé mjög mikilvægt, þegar við erum að gera áætlun eins og þessa, að hægt sé að bera árangurinn við einhverja mælikvarða þannig að það sé ljóst hvernig menn ná settum markmiðum. Ég tel einnig að það sé afskaplega mikilvægt að við gerum byggðaáætlun á svipaðan hátt og samgönguáætlunina, þ.e. að við miðum t.d. við 12 ár en endurskoðum hana alltaf inn á milli og höfum þrjú til fjögur ár undir hverju sinni — en það sé langtímaáætlun líka þannig að menn viti hvert verið er að stefna.

En því miður virðast menn ekki hafa verið reiðubúnir til að fara þessa leið þrátt fyrir að Byggðastofnun hafi lagt á það ákveðna áherslu. Byggðastofnun tínir einnig til aðrar athugasemdir og menn hafa nefnt hér, eins og það að markmið byggðaáætlunar séu yfirleitt góð og það má segja það bæði um þá gömlu og þá nýju. En, eins og segir hér, þá hefur nokkuð skort á að þeim hafi verið fylgt eftir með framkvæmdum. Það er vandinn að því er ekki hrundið í framkvæmd sem markmiðin segja til um. Það er að hluta til vegna þess að menn hafa ekki mælikvarða til að miða við en að hluta til vegna þess fyrirkomulags sem við höfum í byggðamálunum, og ég vil nálgast það örlítið og gefa mér smátíma til að fjalla um það. Ég vil gera það á málefnalegan hátt og vona að hæstv. ráðherra misskilji ekki þau orð mín að ég tel að það hafi verið mistök þegar byggðamálin sem slík voru færð úr forsætisráðuneyti yfir í iðnaðarráðuneyti. Það er algjörlega óháð því fólki sem gegnir viðkomandi embættum. Það er eingöngu vegna þess sem mér sýnist koma fram í báðum þeim plöggum sem hér eru undir, þ.e. annars vegar í skýrslunni og hins vegar í áætluninni fyrir árin 2006–2009. Ég vil færa fyrir þessu nokkur rök. (Gripið fram í.)

Ástæðan, virðulegi forseti, er fyrst og fremst sú að byggðamál eru ekki eins ráðuneytis mál. Byggðamál koma við sögu í nær öllum ráðuneytum. Miðað við skipulag okkar í Stjórnarráðinu eiga mál af því tagi heima undir forsætisráðuneytinu og síðan er hægt að dreifa þeim, en verkstjórnin á að vera þar. Ég vil nefna fleiri rök og horfa til þeirra áherslupunkta sem eru í áætluninni fyrir árin 2006–2009, eins og það er orðað hér:

„Helstu aðgerðir sem gripið verði til í því skyni að ná markmiðum áætlunarinnar verði eftirfarandi.“

Það eru 23 punktar ef ég man rétt. Af þeim eru 12 punktar settir á ábyrgð annarra ráðuneyta en iðnaðarráðuneytisins, þ.e. meiri hluti punktanna er á ábyrgð annarra ráðuneyta. Það er einnig athyglisvert að fleiri punktar eru settir á ábyrgð menntamálaráðuneytisins en á ábyrgð iðnaðarráðuneytisins. Flestir punktar eru settir á Byggðastofnun, sem eðlilega heyrir undir það ráðuneyti sem fer með byggðamálin. En væru byggðamálin hjá forsætisráðuneytinu væru verkefni Byggðastofnunar hjá því ráðuneyti. Þá sjáum við að iðnaðarráðuneytið er ekki einu sinni efst hinna ráðuneytanna varðandi þau verkefni sem að er stefnt á næstu árum, menntamálaráðuneytið hefur flesta punktana.

Það væri fróðlegt að fá að heyra málefnalega umræðu af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra um það hvort það valdi henni ekki einhverjum vanda að vera ráðherra byggðamála með ástandið svona. Að hæstv. ráðherra, sem hefur ekkert boðvald gagnvart öðrum ráðherrum, þurfi meira og minna að vera háð ákvörðunum annarra ráðherra. Ég verð að segja að mér hefur á stundum heyrst á öðrum fundum að hæstv. ráðherra hafi yfir einhverju að kvarta í þeim efnum. Það væri þá fróðlegt að vita — ef hæstv. ráðherra er ekki sammála því að vandinn væri best leystur með því að hafa þessi mál undir forsætisráðuneytinu — hvaða aðrar leiðir væru þá vænlegar til að tryggja enn betur en verið hefur að umrædd markmið náist þrátt fyrir að þau séu á ábyrgð annarra ráðuneyta.

Það er ekki einu sinni þannig, þegar maður fer yfir þetta og reynir að raða markmiðum eftir mikilvægi, að þau markmið sem heyra undir iðnaðarráðuneytið séu þar ofar á blaði en þau sem heyra undir önnur ráðuneyti. Öll markmiðin lúta að mikilvægum málum. Atvinnumálin, sem að hluta til heyra undir iðnaðarráðuneytið, eru auðvitað stærstu málin en síðan eru það samgöngu- og menntamál. Þetta eru kannski þeir stærstu málaflokkar sem koma við sögu og þarf virkilega að taka á.

En þetta var sem sagt umræða um það skipulag sem við höfum á þessum málum. Ég endurtek að það er líka mikilvægt að við setjum byggðamálin ekki í einhvern einfaldan kassa, þau snerta allt þjóðlífið. Við þurfum alltaf að hafa þau í huga þegar verið er að ákveða eða móta hluti til framtíðar.

Frú forseti. Ég nefndi það hér áðan að hæstv. ráðherra hefði ekki nefnt skýrsluna einu orði í framsöguræðu sinni, en í inngangi þessarar umræðu nefndi hún ákveðna málsgrein í skýrslunni sem er býsna athyglisverð. En eins og fram hefur komið í ræðum ýmissa hér þá er í þessum málum oft um að ræða meðaltalsreikning sem segir ekki allan sannleikann. Við vitum að beggja megin við meðaltalið eru aðrar tölur. Ef meðaltalið varðandi íbúaþróunina er greint niður þá er það þannig að á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. stórhöfuðborgarsvæðinu, hefur fjölgað. Í því sambandi vil ég geta þess að ég tel að við þurfum að endurskoða skilgreininguna á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg augljóst mál að áhrifa höfuðborgarsvæðisins gætir æ lengra og radíusinn verður stöðugt stærri. Þegar við erum að skoða íbúaþróun á landsbyggðinni verðum við að skoða það í því samhengi. Ef sú nýja skilgreining á höfuðborgarsvæðinu er höfð í huga þá er það raunverulega bara á Akureyrarsvæðinu, eða sem sagt á hluta af Eyjafjarðarsvæðinu, sem íbúum hefur fjölgað — fyrir utan það sem hefur verið að gerast nú á seinustu árum á Miðausturlandi. Það er því um mjög afmarkaða hluta landsins er að ræða. Mér finnst ekki rétt af hæstv. ráðherra að leggja svona gífurlega áherslu á meðaltölin og telja að allt sé gott og fagurt þess vegna. Þó að við reynum auðvitað að nálgast hlutina á jákvæðan hátt megum við ekki gleyma raunveruleikanum og við megum ekki blekkja okkur sjálf.

Frú forseti. Það er augljóst mál að sá tími sem við höfum hér til umráða er allt of stuttur til að fara yfir jafnviðamikil mál og þetta þannig að ég verð að sleppa ýmsu af því sem ég hafði ætlað að taka hér fyrir. Ég vil þó nefna að stóra bomban sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur nokkuð reglulega kastað fram varðandi tryggingagjaldstillögu sem ég flutti hér ásamt fleirum sem breytingartillögu við fjárlög — ég verð að segja að það var náttúrlega fyrir neðan virðingu þingsins að hv. þingmaður skyldi nálgast mál þannig og taka þau algerlega úr samhengi. Enda man ég ekki eftir að það hafi verið gert þegar við lögðum þessa tillögu fram en hún er hluti af miklu stærri pakka þar sem við vildum vekja athygli á stefnumálum okkar á ýmsum sviðum og mæta skattbreytingartillögum ríkisstjórnarinnar. Varðandi þá tilteknu tillögu vildum við eiginlega leggja áherslu á Fæðingarorlofssjóð sem við vorum með ákveðna tillögu um. Þannig er bara málum háttað, eins og ég held að flestir hv. þingmenn viti, að tekjuleiðin fyrir Fæðingarorlofssjóð er í gegnum tryggingagjaldið og þess vegna var tillagan með þessum hætti. En það er varla umræðuvert að þingmenn sem koma úr hópi sem hækkaði tryggingagjald fyrir stuttu síðan um 3 milljarða kr. séu að vekja sérstaka athygli á svona hlutum. Eins og ég sagði áðan þá er það raunverulega ekki hæft til umræðna og allra síst í því samhengi sem við erum hér að ræða, um byggðamálin.

En frú forseti. Ég sé að tíminn er alveg að líða hjá. Að lokum vildi ég vekja athygli hæstv. iðnaðarráðherra á paragrafi sem er fyrir aftan það sem hæstv. ráðherra vakti athygli á hér morgun, þ.e. um þá uggvænlegu þróun sem hefur orðið nú í seinni tíð að launamunur milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins hefur þróast mjög ískyggilega og hefur farið vaxandi þannig að meðaltekjur eru miklum mun hærri hér á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Við hljótum að horfa til þess og stefna (Forseti hringir.) að því að bæta úr.