132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér hafa verið rædd tvö þingmál í dag. Annars vegar skýrsla iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005 og hins vegar tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009. Á þessum 15 mínútum er ekki hægt að fara mjög ítarlega í alla þá þætti sem hér gæti verið nauðsynlegt að koma inn á. Ég mun þó drepa á allnokkra.

Í fyrsta lagi vil ég árétta að það er eftirsóknarvert fyrir marga að búa úti á landi. Litlu samfélögin, sjávarbyggðirnar, sveitaþorpin, sveitirnar og byggðirnar eru á margan hátt eftirsóknarverðar. Hið góða nágrannasamfélag þar sem hver og einn lætur sig kjör nágrannans varða og tengsl við náttúruna. Félagslegir þættir í dreifbýlissamfélögum eru á margan hátt eftirsóknarverðir. Þess vegna held ég að þeir tímar muni koma að fólk muni í auknum mæli sækja út úr meginþéttbýlinu til dreifðari byggða til að njóta þess sem þar er upp á að bjóða bæði í samfélagslegu, menningarlegu og náttúrulegu tilliti.

Til að þetta megi hins vegar ganga eftir þurfa hin ytri skilyrði fyrir byggð og búsetu á þessum landsvæðum að vera fyrir hendi. Og það er kannski það sem við tökumst á um hér, um stefnu ríkisstjórnarinnar annars vegar í byggða- og atvinnumálum og hins vegar stefnu okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í að efla og treysta byggð um land allt. Þar erum við ekki sammála. Ríkisstjórnin hefur fengið sín tækifæri. Framsóknarflokkurinn hefur verið með byggðamálin undir sinni forsjá líklega síðan um áramótin 1999–2000. En áður var þau undir forustu Sjálfstæðisflokksins. Ég held að öllum sé ljóst að atvinnustefna núverandi ríkisstjórnar varðandi hinar dreifðu byggðir hefur ekki gengið upp. Menn geta velt því fyrir sér hvort einhverjar plástursaðgerðir sem hún hefur gripið til hafi komið í veg fyrir að eitthvað verra gerðist. Það má vel vera. En þegar litið er á tölur um búsetu, um fjölda fólks, um tekjur fólks í hinum ýmsu byggðarlögum út um land — menn hafa líka nefnt hér möguleika til menntunar og annarrar slíkrar félagslegrar þjónustu sem eru ekki samkeppnisfærir — þá verður að segjast, að stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum hefur beðið skipbrot. Þessi skýrsla sem við erum hér með er bara dæmi um það.

Þá velta menn fyrir sér hvort þessi tillaga til þingsályktunar um aðgerðir í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 feli eitthvað nýtt í sér. Ég get ekki séð að svo sé, því miður. Í þeim atriðum sem talin eru þar upp, þ.e. atriði eins og að safna frekari gögnum, söfnun og úrvinnsla tölfræðilegra gagna um byggðaþróun, eins og sé nú helst þörf á því. Staðreyndirnar tala sínu máli um byggðaþróunina. Tölur frá Hagstofunni koma reglulega um íbúafjölda, um tekjur og atvinnustig. Það er því ástæðulaust að vera að búa til eitthvert nýtt apparat til að safna tölum um það. Hér er nefnt að gerð verði athugun á stöðu byggðalaga sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun. Nákvæmlega sama setning og hefur gengið í gegnum allar þessar áætlanir núna minnsta kosti sex, átta ár.

Menn ætla að gera hið nákvæmlega sama, gera athugun. Það þarf ekki að gera frekari athugun. Það þarf að framkvæma. Það stendur hér í 17. töluliðnum, svo ég nefni hér af handahófi:

„Greining sóknarfæra hefðbundinna atvinnugreina – efling opinberrar þjónustu: Gerð verði úttekt á stöðu landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar á landsbyggðinni og greind helstu sóknarfæri …“ — Drottinn minn dýri.

Þessar setningar hef ég lesið aftur og aftur í meira en áratug. Alltaf skal þurfa að greina eitthvað. Ég veit ekki betur en að til sé bunki af skýrslum. Ég veit ekki betur en að á liðnu sumri hafi verið unnin skýrsla á vegum sjávarútvegsráðuneytisins um stöðu sjávarútvegsins, svokölluð hágengisskýrsla sem sýndi að sjávarútvegurinn á í vanda. Þar var greint hvað þyrfti að gera. Sjávarútvegurinn þurfti betri samkeppnisstöðu, leiðréttingu á genginu og fá viðurkenningu sem atvinnuvegur í landinu og skilyrði sem slíkur. Við þurfum engar sérstakar greiningar frekar á ástandinu. Þær liggja fyrir. Þetta er hinn mikli veikleiki þeirra tillagna sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur hér fram. Þær eru bara snakk um að skoða eitthvað, greina eitthvað og velta einhverju fyrir sér en ekkert raunhæft um að ræða. Mér finnst það móðgun af hálfu iðnaðarráðherra gagnvart þessum málaflokki að sú skuli vera raunin.

Lítum á hvar þar hefur gerst á undanförnum árum í málaflokki sem er á ábyrgð hæstv. iðnaðarráðherra. Skoðum raforkulögin, markaðsvæðingu raforkukerfisins sem var svo mikið hjartans mál iðnaðarráðherra að hún kom ítrekað í ræðustól og réð sér vart af gleði yfir að hafa komið á markaðsvæðingu raforkukerfisins. Ætli það hafi verið mjög sterk byggðaaðgerð? Frú forseti. Ætli landsmenn, íbúar á Vestfjörðum, Norðurlandi, Norðausturlandi, upplifi breytingarnar á raforkulögunum sem sterka byggðaaðgerð? Þar var framkvæmt. Þar voru áhrifin ekki könnuð. Þar var bara markaðsvætt. Fyrirsagnirnar láta ekki á sér standa. Í Viðskiptablaðinu 8. febrúar 2006 er fyrirsögnin: „Hækkanir á raforkuverði í kjölfar nýju raforkulaganna“. Ætli þetta hafi verið byggðaaðgerð? Í Fréttablaðinu 1. febrúar 2006: „Daggjald raforku hefur hækkað um 106%“ — í kjölfar raforkulaganna. Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Daggjald heimila vegna raforkunotkunar hefur tvöfaldast á tveimur árum. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir raforkulögin orsaka hækkunina. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir flest fyrirtæki einnig greiða hærra verð og líkir ástandinu við samráð olíufélaganna.“

Þarna eru aðgerðir sem iðnaðar- og byggðamálaráðherra hefur beitt sér fyrir og landsbyggðin blæðir.

Við höfum nýlega fjallað um Sæsilfur, lokun fiskeldisstöðvarinnar í Mjóafirði. Fjallað hefur verið um hækkun á orkuverði til fyrirtækja, t.d. á Súðavík. Dæmin eru um allt land. Hvar eru byggðaaðgerðirnar? Hvar birtast þær? Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra hvort ekki væri rétt að snúa aðeins til baka. Það væri mikil kjarabót og styrkur fyrir marga út um dreifðar byggðir landsins ef rafmagnið, þessi grunnþjónusta, væri áfram í almenningsforsjá og félagsleg þjónusta gagnvart atvinnulífi og búsetu. Nei, stefna iðnaðarráðherra er að ganga enn lengra. Nú á að fara að hlutafélagavæða Rarik og undirbúa fyrir einkavæðingu og sölu. Ætli það sé mjög sterk byggðaaðgerð?

Frú forseti. Við þekkjum hvernig var með Símann. Síminn var hlutafélagavæddur og átti alls ekki að selja hann. Hann var hlutafélagavæddur en undanfarin ár var eitt aðalkeppikefli ríkisins að selja Símann. Nú er hann seldur. Hvað gerist þá? Jú, uppsagnir og lokanir á starfsstöðvum á Ísafirði, Blönduósi, Siglufirði og nú á Sauðárkróki, skerðing á þjónustu. Það verður dýrara og meiri fyrirhöfn fyrir íbúa og fyrirtæki á þeim svæðum að sækja grunnþjónustu sem þar var áður veitt auk þess sem tæknistörf tapast. Ætli byggðamálaráðherra hafi beitt sér í þeim efnum? Ætli byggðamálaráðherra hafi látið fylgja nokkur skilyrði þegar Síminn var seldur, um að haldið yrði uppi ákveðnu þjónustustigi með öflugum starfsstöðvum á landsbyggðinni? Nei, um það lætur byggðamálaráðherra sig engu varða.

Auk þessa kemur stóriðjustefnan með hinu háa gengi harkalega niður á öllum útflutningsgreinum, sem einmitt eru undirstaða í atvinnulífi á landsbyggðinni, fiskvinnslan, sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan og minni fyrirtæki, einstaklingsfyrirtæki. Þetta háa gengi, þensla á vinnumarkaði, þ.e. ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar, kemur harðast niður á þeim stöðum. Ástandið bitnar á greinum sem eru undirstaðan fyrir byggð og búsetu um allt land. Þetta kemur niður á nýtingu og meðferð þeirra auðlinda sem hafa verið og verða áfram undirstaða efnahagslegrar velferð okkar. Þeim skal núna fórna fyrir allt aðra hagsmuni, m.a. hagsmuni erlendrar stóriðju sem skilar sáralitlum þjóðhagslegum ábata fyrir hagkerfið.

Ég hef hérna nýja ályktun frá ferðaþjónustufyrirtækjum, frá í dag. Hún birtist á vef Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

„Framtíð ferðaþjónustu er ógnað með stefnu stjórnvalda í virkjana- og stóriðjumálum. Veldur þar fyrst og fremst tvennt, annars vegar hátt gengi íslensku krónunnar og hins vegar æ meiri ásókn orkufyrirtækja í mikilvægustu söluvöru íslenskrar ferðaþjónustu; hreina og ósnortna náttúru.“

Þetta er ákall frá ferðaþjónustunni. Við höfum heyrt það áður. Við höfum heyrt ákall frá fiskvinnslunni. Við höfum heyrt ákall frá útgerðinni og frá smærri iðnfyrirtækjum vítt og breitt um landið. Því ákalli er ekki svarað eða því svarað með kveðjum eins og þeirri sem var send til Vestfirðinga á liðnu sumri þegar hverri fiskvinnslunni á fætur annarri var lokað þar, vegna ruðningsáhrifa stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Þá svaraði hæstv. iðnaðarráðherra: Já, en ruðningsáhrif geta líka verið af því góða. Fólk á að sækja í aðra vinnu. Það eru kaldar kveðjur til Vestfirðinga sem eiga þar allar sínar eignir. Þeir eru með auðlindina skammt undan landinu en mega ekki nýta hana. (Forseti hringir.) Frú forseti. Það þarf að breyta rækilega um stefnu.