132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Við erum ekki sammála ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hvað það varðar að þetta kerfi hafi verið komið í ógöngur. Alls ekki. Ég er á því að sú þróun sem varð hafi sýnt sig, aflatölur og landaður afli á Vestfjörðum sýnir að við höfðum rétt fyrir okkur í Frjálslynda flokknum. Ætli það sé ekki tífalt dýrara að komast inn í kerfið núna en var að komast inn í sóknardagakerfið? Það er ómerkilegur málflutningur að koma svona með kápuna á báðum öxlum eins og hv. þingmaður hefur gert með því að bæði gagnrýna og síðan styðja breytingartillögur til hins verra. Ég er á því að hv. þingmaður eigi að koma með einhverjar tillögur. Hvað vill hv. þingmaður, frú forseti? Það kemur ekki hér fram. Það er fullyrt að sóknardagakerfið hafi verið komið í ógöngur þó svo að það blasi við öllum að þessar breytingar hafa orðið til hins verra fyrir byggðirnar á Vestfjörðum. Því miður studdi hv. þingmaður það. Ég vonast bara til að við fáum nú einhver svör um hvaða breytingar hann vill, frú forseti.