132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:41]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil nú grípa boltann þar sem hann er á lofti varðandi sjávarútvegsumræðuna. Ég tel að það sé alveg hárrétt að byggðavandamálin í landinu eru víða tilkomin vegna þeirra atvinnuháttabreytinga sem eignarhaldið á veiðiréttinum hefur valdið. Það mun auðvitað ekki ganga til baka á nokkurn hátt miðað við það kerfi sem er núna. Reyndar á það enga möguleika á öðru en að versna vegna þess að í gegnum tíðina, frá því frjálsa framsalinu var komið á, hafa verið svona göt í kerfinu sem menn hafa verið að bjarga sér í gegnum. Koma sér upp úr með þeim hætti sem mögulegt var í smábátakerfinu. Menn hafa gert breytingar hvað eftir annað. En nú er búið að gera kerfið nánast einsleitt þó svo að það eigi að heita tvö kerfi, má segja að krókaaflamarkskerfið sé orðið í eðli sínu nákvæmlega sams konar kerfi og aflamarkskerfið sem tók mynd á sig í kringum 1990. Þetta hefur það í för með sér, og það er búið að fá góða reynslu á það, eða öllu heldur vonda, að nýliðunarmöguleikar í sjávarútveginum eru gríðarlega erfiðir. Það er engan veginn hægt að halda því fram að þetta kerfi sé eðlilegt, því nýliðar sem vilja koma inn í þessa atvinnugrein búa við samkeppnisstöðu sem er nánast óyfirstíganleg gagnvart þeim sem fyrir eru.

Ég held að ef menn velti því fyrir sér hvort svona kerfi gæti passað í öðrum atvinnugreinum mundu þeir fljótt hvarfla frá því. Það er því miður önnur mótsögn í þessu öllu saman sem er sú að stjórnarflokkarnir sem hafa borið þetta kerfi uppi, þar á bæ virðast menn ekki hafa skilið almennilega hvaða kerfi þetta var eða er sem þeir eru með í höndunum. Því þegar sú ríkisstjórn sem nú situr gerði sinn stjórnarsáttmála eftir síðustu kosningar var sett inn í hann sú niðurstaða að það ætti að setja eignarhald á þessari auðlind, þ.e. sjávarútveginum, inn í stjórnarskrána. Það segir manni að það getur ekki verið að menn hafi skilið það kerfi sem er í gangi. Vegna þess að eignarhaldið á veiðiréttinum er þannig að það má líkja því við venjulegt eignarhald og auðvitað geta menn ekki bæði einkavætt auðlindina og haft hana fyrir þjóðarauðlind. Stjórnvöld verða að sjálfsögðu að gæta eignarhaldsins fyrir hönd þjóðarinnar ef um er að ræða þjóðarauðlind í alvöru og auðvitað munu menn ekki setja neinar auðlindir inn í stjórnarskrána sem þjóðarauðlindir öðruvísi en að gæta eignarhaldsins.

Ég ákvað að taka aftur til máls vegna þess að það voru nokkur atriði sem ég hafði ekki komið að í ræðu minni. Þær eru fljótar að fara þær mínútur sem við höfum hér.

Í fyrsta lagi langar mig til að nefna Byggðastofnun. Ég hefði kosið að hæstv. ráðherra hefði komið betur að stöðu þeirra mála, því að eins og menn muna strandaði Byggðastofnun í vetur og í raun og veru neituðu þeir sem þar stjórna húsum að halda áfram að óbreyttu. Þeir fengu síðan einhvers konar skilaboð frá stjórnvöldum um að þeir ættu að halda áfram að reka stofnunina, halda áfram að lána þangað til ný úrræði sæju dagsins ljós. Þau úrræði eru ekki komin fram enn þá. Skilaboðin sem komu frá stjórnvöldum voru ekki trúverðug að öllu leyti. Í fyrsta lagi var sagt að stofnunin ætti að halda áfram að stunda sjálfbæra lánastarfsemi. Ég held að öllum sé ljóst sem það skoða að eigi að styðja byggð í landinu með lánastarfsemi, í þeim tilgangi að sjá til þess að fyrirtæki og starfsemi geti gengið á landsbyggðinni þar sem erfitt er að reka slíkt, þá geti menn ekki gert sömu ávöxtunarkröfur til þeirra lána sem slíkum fyrirtækjum er boðið. Þess vegna getur lánastarfsemi eins og Byggðastofnun er ætlað að reka ekki verið fullkomlega sjálfbær.

Það er ekki gott þegar menn horfast ekki í augu við staðreyndirnar eins og þær eru. Þessi skilaboð komu frá þeirri nefnd sem farið hafði yfir málið og hæstv. iðnaðarráðherra þegar þessi mál voru til umræðu hér í vetur. Hæstv. ráðherra lýsti þá líka yfir að hún teldi að endurskipuleggja ætti málefni Byggðastofnunar. Ég skildi þá yfirlýsingu þannig og fagnaði því að hæstv. ráðherra væri snúin til lands aftur og vildi nú sameina þau verkefni sem stjórnvöld eru að vinna að í byggðamálum, sameina þau meira undir Byggðastofnun en áður hefur verið. Því satt að segja hefur hæstv. ráðherra í raun verið að tvístra kröftunum sem notaðir eru í byggðamálum með því að koma að byggðamálunum úr ýmsum áttum. Það hefur ríkisstjórnin í rauninni verið að gera, koma að byggðamálunum úr ýmsum áttum en ekki notað þá stofnun til að framkvæma þau verkefni sem Byggðastofnun er auðvitað ætlað að gera. Ef menn reka Byggðastofnun verða menn að gera það myndarlega og láta þá stofnun framkvæma það sem ætlunin er að gera í byggðamálum.

Auðvitað er hægt að ræða fleira hér sem er ákveðinn tvískinningur af hálfu stjórnvalda, t.d. er full ástæða til að taka umræðuna um álmálin síðustu daga sem dæmi um það. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur haldið fundi á Norðurlandi þar sem hún segir með digrum yfirlýsingum að fólk á Norðurlandi hafi aldrei verið nær því að fá þar byggt álver en núna. Ekki veit ég út frá hverju hæstv. ráðherra talar þar, kannski út frá því að hún hafi talið að möguleikarnir á að byggja upp slíkan iðnað hafi verið býsna fjarri því svæði í gegnum tíðina. En það er svolítið skrýtið þar sem nýlega lá fyrir yfirlýsing Landsvirkjunar um að þeir ætli ekki að tala við neitt fyrirtæki um uppbyggingu álvers annað en það sem rekið er í Straumsvík, að þá hafi þeir sem á Norðurlandi búa allt í einu aldrei verið nær því að fá álver til sín þótt fyrir liggi að allar heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda séu uppurnar ef ráðist verður í stækkun álversins í Straumsvík eins og gert er ráð fyrir. Ég tel að nóg sé komið af því að stjórnvöld slái ryki í augu fólks með slíkum yfirlýsingum. Stjórnvöld geta ekki skotið sér undan ábyrgð á þeirri stöðu sem er uppi. Úr því að Landsvirkjun á í alvöruviðræðum um stækkun álversins í Straumsvík verða stjórnvöld líka að kannast við að bera ábyrgð á þeirri stöðu sem þar er uppi. Það getur ekki verið meiningin að standa ekki við alþjóðlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafa skrifað undir, það hlýtur að vera ætlunin að gera ráð fyrir að standa við þær skuldbindingar áfram. Að mínu viti eru það óheiðarleg skilaboð sem verið er að senda, þegar viðræður eru komnar af stað og búið er að gefa skuldbindandi yfirlýsingar af hálfu Landsvirkjunar um að ekki verði talað við aðra aðila fyrr en að þessum viðræðum ljúki, að hæstv. iðnaðarráðherra sé á fullri ferð í kjördæmi sínu og haldi því fram að möguleikarnir til að byggja upp stóriðju þar hafi aldrei verið meiri þar.

Ég endurtek að umræða um byggðamál er nauðsynleg og það er nauðsynlegt að hafa uppi einhvers konar áætlanir um stefnu í byggðamálum en það sem hins vegar vantar í þessa áætlun er fjármagn. Menn þurfa að vita hvað þeir eru að gera, menn þurfa að vita að á bak við slíkar áætlanir séu fjármunir sem tryggja að framgangur verði í einhverjum veigamiklum atriðum sem eru í áætlunum eins og þessum. Það eru ekki fjármunir í þessari áætlun. Þeir fjármunir sem talað var um að tengdust byggðaáætlun voru fyrst og fremst fjármunir sem höfðu verið ætlaðir til eflingar og stækkunar sveitarfélaganna. Eftir að kosningar um það fóru fram má segja að nánast enginn árangur hafi orðið af því stækkunarferli sem ríkisstjórnin stóð fyrir. Einu ákvarðanirnar sem hafa verið teknar voru reyndar komnar svolítið á legg áður og tengdust ekki beinlínis þessari herferð ríkisstjórnarinnar. Það má því segja að herferðin hafi nánast mistekist. Og þess vegna eru þeir fjármunir sem þarna var gert ráð fyrir ekki einu sinni líklegir til að verða til styrktar byggðarlögunum, a.m.k. ekki á næstu missirum eða árum. Aðalfjármunirnir sem þarna voru eru sem sagt ekki til staðar.

Mér finnst umræðan um byggðamál á Íslandi undanfarin árum minna býsna mikið á umræðuna um landbúnaðarmálin sjálf, og þá sérstaklega um sauðfjárræktina þar sem stjórnvöld hafa sífellt talað eins og það væri arðbær og líkleg atvinnugrein til framtíðar fyrir bændur að reka sauðfjárbúskap. Fjöldi manna hefur áratugum saman trúað þessu tali, lifað við fátækt og basl við að halda uppi búskap sem hefur aldrei getað gefið almennilegt lífsframfæri. Þannig hafa stjórnvöld orðið til þess, með sífelldu tali um að bjartara sé fram undan, það sé verið að gera þetta og það sé verið að gera hitt, að fólk í landbúnaði hefur haldið áfram rekstri sem hefur ekki gefið því mannsæmandi lífsskilyrði. Mér finnst byggðaumræðan bera svolítinn svip af þessu. Hún er dálítið eins og vögguljóð sem menn syngja í sölum Alþingis og á fundum út um landið yfir fólkinu sem býr á þeim svæðum. Menn kannast ekki við staðreyndir mála, menn kannast ekki við að grundvallaratvinnuvegur þessara byggða hafi verið drepinn í dróma. Það er ekki atvinnufrelsi í sjávarútvegi á Íslandi. Sjávarbyggðir sem orðið hafa til vegna þeirra fiskimiða sem liggja nærri þeim byggðarlögum eiga í raun og veru enga möguleika á að ná vopnum sínum. Ungt fólk trúir ekki á framtíð í þessum byggðum vegna þess að grundvallaratvinnuvegurinn er svona leikinn. Ég tel að það sé löngu kominn tími til að hætta að syngja þessi vögguljóð yfir landsbyggðinni, eins og stjórnvöld gera, ef menn ætla ekki að komast til sjálfs sín hvað þetta varðar. Ég fagna því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan að hann teldi að endurskoða ætti sjávarútvegsstefnuna með það í huga að meira frelsi yrði til að vinna í þessari atvinnugrein. En mér hefur einhvern veginn fundist að félagar hans í Framsóknarflokknum og reyndar samherjar hans í Sjálfstæðisflokknum í að styðja þessa ríkisstjórn hafi ekki tekið mikið mark á því sem hv. þingmaður hefur verið að segja og lítið tekið undir sjónarmið hans um að þetta þurfi að endurskoða.

Ég bind hins vegar áfram vonir við að menn átti sig á að þessi stefna, eignarhaldsstefna í þessum undirstöðuatvinnuvegi Íslendinga gengur ekki upp og hún getur aldrei gengið upp við þá niðurstöðu (Forseti hringir.) að þetta eigi að vera þjóðarauðlind.