132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[19:27]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að nú sé einboðið þegar fyrir liggur að kostnaðurinn við gerð jarðganga til Vestmannaeyja sé svo hár að ekkert þýðir að ræða það mál — auk þess eru jarðfræðilegar aðstæður þannig að það er varla hægt að treysta sér að leggja til að reyna að gera jarðgöng — þá held ég mikilvægt sé að menn fari í að bæta samgöngur Vestmannaeyja við landið sem fyrst og tek ég undir það með hv. þingmanni. Það held ég að menn eigi að gera með því að gera nýja höfn við Bakka, á Bakkafjöru, þannig að siglingartíminn milli lands og Eyja verði sem stystur og svo á að hafa sem tíðastar ferðir. Ég held að það sé langbesta leiðin til að tryggja góðar samgöngur og draga úr áhrifum af einangrun. Auk þess mundi flug frá Vestmannaeyjum til Bakka að sjálfsögðu verða vænlegra heldur en flug til Reykjavíkur. Ég held að þetta sé sú leið sem mundi styrkja samgöngur við Vestmannaeyjar meira en aðrir kostir.

Þá tók ég eftir að ekki komu skýrt fram hjá þingmanni tillögur um breytingar á löggjöf um stjórn fiskveiða þannig að við erum engu nær um hvað Frjálslyndi flokkurinn vill í þeim efnum. Ég vil snúa hlutunum við núna og inna hv. þingmann eftir tillögum í þeim efnum. Ég vil þó segja honum, svo það fari ekki á milli mála, að mínar hugmyndir í þeim efnum eru þær að alla vega til að byrja með sé skynsamlegast að taka frá ákveðinn hluta af veiðiheimildunum og nota þær til ráðstöfunar fyrir einstök byggðarlög þannig að af þeim hafi menn tekjurnar með útleigu veiðiheimildanna, rétt eins og Þuríður Sundafyllir gerði hér forðum daga er hún settist að í Bolungarvík. Þegar hún setti Kvíamið lét hún menn borga veiðileyfagjald fyrir að nýta miðin, eina á kollótta fyrir hvert ár. Að (Forseti hringir.) sjálfsögðu er ekkert óeðlilegt að sjávarbyggðir fái tekjur af auðlindinni.