132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[19:36]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er nú nokkuð liðið á þessa umræðu og ég ætla að reyna að halda áfram þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni. En fyrst varðandi það hverjir hafa tekið þátt í umræðunni, hverjir hafa verið viðstaddir og hverjir ekki, þá langar mig til að bæta því hér við að það athyglisvert, eins og bent var á áðan, að engir hæstv. ráðherrar hafa verið viðstaddir að undanskildum hæstv. iðnaðarráðherra. Það er auðvitað með ólíkindum vegna þess að eins og margoft hefur komið fram þá eru byggðamálin ekki þess eðlis að hægt sé að ramma þau inn í eitt fagráðuneyti. Ég ítreka því þá skoðun mína sem kom fram í fyrri ræðu minni að ég held að það sé óheppilegt að vista byggðamál í fagráðuneyti, sama hvaða fagráðuneyti það er, og að hentugra og eðlilegra sé að byggðamálin væru í forsætisráðuneytinu þannig að menn átti sig á því að þau mál tengjast öllum. Ég held að mæting hæstv. ráðherra við þessa umræðu sýni mikilvægi þess að allir hæstv. ráðherrar átti sig á því að byggðamál varða þá alla.

Það er eitt sem við höfum kannski vanið okkur allt of mikið á þegar við ræðum byggðamál en það er að ræða ekki alla byggðina í landinu. Ég minnist þess í ræðum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar hér fyrir nokkrum árum þegar hann benti afskaplega skýrt á það með sterkum rökum að það væri rekin og hefði verið rekin byggðastefna í þessu landi sem hefði skilað mjög góðum árangri, þ.e. sú byggðastefna að fjölga fólki hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er vissulega rétt, menn hafa náð mjög góðum árangri í þeirri byggðastefnu og þess vegna er mjög mikilvægt að við ræðum byggðamálin heildstætt og þannig þarf auðvitað að nálgast þessi mál, að við horfum einnig á byggðina hér á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að þetta er auðvitað mál okkar allra. En því miður hafa afar fáir hv. þingmenn hér á höfuðborgarsvæðinu tekið þátt í umræðum nú, ég hygg að það sé rétt hjá mér að það hafi aðeins einn þingmaður úr kjördæmum höfuðborgarsvæðisins, þ.e. hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tekið þátt í þeim í dag. Það er auðvitað miður því að ég lít svo á að þetta séu mál sem varði okkur öll og við þurfum að ná umræðunni inn á það svið að við skoðum þessi mál heildstætt.

Ég nefni bara eitt dæmi sem kom fram í ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar áðan, þar sem hann vitnaði til reynslu Norðmanna varðandi flutning opinberra stofnana. Þetta er mál sem hefur raunverulega aldrei náðst að ræða almennilega hér núna til fjölda ára. Það hafa ekki verið gerðar neinar áætlanir í þeim efnum og ég vil fullyrða að menn hafi aldrei skoðað þessi mál, a.m.k. ekki núna mjög lengi, varla síðan á áttunda áratugnum af neinni alvöru, þ.e. hvernig eigi að standa að flutningi stofnana, hvort menn vilji t.d. flytja heilar stofnanir eða flytja eitt og eitt starf eða hluta þjónustu. Við sem höfum fylgst með þessum málum nokkuð lengi þekkjum þróunina í byggðaáætlun varðandi það hvernig farið hefur verið að því að nálgast flutning á opinberum störfum. Það hafa ekki verið gerðar margar áætlanir síðan það markmið var sett inn að fjölga skyldi opinberum störfum meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var nokkuð skýrt og mælanlegt markmið. Það verður hins vegar að segjast eins og er — af því að ég held því miður að menn hafi ekki meint þetta og því ekki farið í þá umræðu sem með þurfti — að árangurinn varð aldrei eins og stefnt var að. Það hefur ætíð orðið þannig að opinberum störfum hefur fjölgað miklum mun meir á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Næsta skref í þróuninni var svo að inn í byggðaáætlun var sett orðalag sem hljóðaði upp á að stefnt skyldi að því að opinberum störfum fjölgaði jafnmikið á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Enn og aftur varð niðurstaðan sú sama, vegna þess að ég held að menn hafi ekki meint þetta og ekki var farið skipulega í umræðu um hvernig ætti að ná þeim markmiðum, markmiðin náðust ekki og opinberum störfum fjölgaði mun meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Það var síðan í síðustu byggðaáætlun, en við erum m.a. nú að fjalla um skýrslu um hvernig til hafi tekist, að menn féllu algjörlega frá þessum markmiðum og færðu sig, ef ég man rétt, í almennt orðalag um að það ætti að skoða það að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, engin markmið voru sett um hversu mikið það ætti að vera. Ég hygg og sé það reyndar að árangurinn hefur verið svipaður, það fjölgar enn þá mun meira opinberum störfum á höfuðborgarsvæðinu. Og ég sé að í nýrri byggðaáætlun er svipað orðalag og síðast, að menn ætli sem sagt að skoða þetta og velta þessu svolítið fyrir sér og athuga hvort eitthvað sé hægt að gera í þessum efnum en ekki tekið á því með þeim hætti sem nauðsynlegt væri. Ég er með þetta orðalag hér fyrir framan mig, 17. áherslupunkturinn endar á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Hugað verði að því hvort efla megi opinbera þjónustu við þessar atvinnugreinar á landsbyggðinni,“ — sem eru taldar upp á undan — „t.d. með flutningi tiltekinna verkefna.“

Sterkara er ekki að orði kveðið í þeim efnum og hefði maður nú haldið að það hefði verið hægt að nota t.d. tímabil fyrri byggðaáætlunar til þess að reyna að fara yfir hvernig hægt væri að standa að þessum málum og það væri þá hægt að koma með skýrara orðalag og ljósari og mælanlegri markmið í þeirri byggðaáætlun sem tekur við árið 2006. En því miður er þessu ekki þannig varið og við sitjum því enn uppi með hið óljósa orðalag og það verður væntanlega eins og áður tilviljunarkennt hvernig að þessum málum verður staðið.

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni var ég þar staddur að ég var að fjalla um skýrsluna sem hæstv. iðnaðarráðherra taldi augljóslega vera nægjanlega rædda því ekki var einu einasta orði eytt í hana í framsögu hæstv. ráðherra. En ég var að fjalla þar um íbúaþróunina, sem og ýmsir hv. þingmenn hafa gert, þannig að ég held að það þurfi ekki að endurtaka neitt í þeim efnum en niðurstaðan er augljóslega sú að það sem menn hafa stefnt að hefur því miður ekki náðst fram, það má segja að það hefur eingöngu orðið fjölgun á Stór-Reykjavíkursvæðinu og síðan í kringum Akureyri og á Miðausturlandi.

Varðandi tölurnar á Miðausturlandi sem hér hafa nokkuð verið ræddar, að hluta til á afar sérkennilegan hátt, þá er það auðvitað alveg ljóst að á meðan á því uppbyggingarskeiði stendur sem nú er þar þá er mjög erfitt að byggja raunverulega á íbúatölum því þær eru síbreytilegar og það er auðvitað ekki fyrr en álverið tekur til starfa sem menn sjá hvernig til tekst í þeim efnum. En eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti hér á í andsvari, þá eru öll teikn á lofti um að þar muni það heppnast sem að var stefnt, að fjölga íbúum verulega, og hugarfarið er auðvitað komið í þann gír að það er ekkert sem mun koma í veg fyrir það.

Síðan koma fram í skýrslunni þær uggvænlegu tölur sem einnig hafa verið nokkuð ræddar hér, um launaþróun, þ.e. að meðalatvinnutekjur hafa þróast á þann hátt að það hefur stöðugt hallað á landsbyggðina í þeim efnum. Þetta er áhyggjuefni sem hefði þurft að skoða nánar, hvernig bregðast megi við því að þetta er öfugt við það sem lengst af var, en einn af kostunum fyrir marga við að búa á landsbyggðinni var að þar voru meiri tekjumöguleikar.

Herra forseti. Það er athyglisvert að skoða síðan örlítið þá niðurstöðu sem Byggðastofnun kemst að varðandi síðasta tímabil byggðaáætlunar. Ef niðurstaðan er tekin saman örlítið stytt þá segir hér, með leyfi forseta:

„Aðgerðir hafa þó ekki skilað nægum árangri á nokkrum landsvæðum, svo sem Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, norðausturhorninu, sunnanverðum Austfjörðum, Skaftafellssýslum og Vestmannaeyjum.“

Þetta hefur ekki skilað árangri á ansi stórum hluta landsins og er auðvitað eðlileg krafa að það sé þá sérstaklega skoðað á næsta tímabili hvernig hægt er að bregðast við þessu. Ég verð að taka undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það er ekki að sjá í þeim tillögum sem hér liggja fyrir að hrein og klár markmið séu um hvernig hugsanlegt er að snúa þessu við, verja þessi svæði eða yfir höfuð hvernig stjórnvöld vilja bregðast við slíkri þróun, hvort stjórnvöld vilji í raun og veru halda henni áfram.

Ég vil vekja athygli á því sem segir líka í niðurstöðu Byggðastofnunar sem skiptir gífurlegu máli en þar segir, með leyfi forseta:

„… og kraftur heimamanna skiptir ætíð mestu máli þegar kemur að því að takast á við breytingar í atvinnuháttum og samfélagsþróun.“

Þetta, frú forseti, er í raun lykilsetning. Því er afskaplega mikilvægt að þær aðgerðir sem verið er að undirbúa eða vinna í í þessum efnum séu einmitt til þess að auka kraft og þor heimamanna, þ.e. að fá þá í lið með sér við þær breytingar sem þarf að gera en ekki að koma inn hjá heimamönnum ýmist væntingum sem ekki er hægt að standa undir eða draga úr þeim allan mátt. Slíkt er ekki hægt og það þarf að haga aðgerðum þannig að heimamenn séu drifkrafturinn í þeim breytingum sem þarf að fara í.

Hæstv. ráðherra bendir á eina leið og eðlilegt er að hæstv. ráðherra bendi á hana vegna þess að vaxtarsamningur er að því er virðist á margan hátt lykilorð í framtíðarsýn hæstv. ráðherra. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra í því að vaxtarsamningar geta skilað árangri og við erum að vona að þeir skili árangri þar sem þeir eru komnir á og verða settir á. En ljóst er að töluvert fjármagn þarf líka til að geta sett af stað hlutina og er einmitt mjög gott módel fyrir það að ná heimamönnum með, það er alveg hárrétt. En ég held að skoða þurfi verulega hvort þurfi ekki líka að vera heildstæð stefna gagnvart landinu öllu vegna þess að það er augljóst mál, það er bara raunsæi, að við getum ekki látið öll svæði vaxa. Þannig eru bara staðreyndirnar og þarf því að nálgast þetta á mismunandi hátt.

Það er raunverulega á margan hátt sorglegt hversu lengi við framkvæmum hluti sem hafa verið reyndir mjög víða. Það er eins og við þurfum allt of oft að finna upp hjólið, það er eins og engir aðrir hafi lent í byggðaþróun eða íbúaþróun eins og við, en þannig eru hlutirnir auðvitað ekki. Þetta er alkunna og mjög víða hefur verið brugðist við með ágætum árangri. Og vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra tilheyrir flokki sem á síðustu dögum hefur verið að vekja sérstaka athygli á Evrópusambandinu þá er náttúrlega hægt að leita þar fanga og sjá að ýmislegt sem Evrópusambandið hefur verið að taka sér fyrir hendur í þessum efnum hefur skilað mjög góðum árangri. Þekktust eru líklega dæmin á Írlandi þar sem hlutunum var snúið við. Við sjáum það í Skotlandi, norðanverðu Finnlandi og norðanverðri Svíþjóð þar sem menn hafa verið að taka á þessum hlutum. Það er eiginlega óskiljanlegt að við skulum ekki geta sótt þangað meira fóður.

Frú forseti. Það er eins og oft áður að tíminn er fljótur að líða. Ég vil þó ekki hætta að fjalla um þessi mál öðruvísi en að nefna afskaplega stóran hlut sem ég hef algjörlega látið ónefnt fram að þessu og það er hið göfuga markmið um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Ég sé að það er nær óbreytt í áætlun næsta tímabils. Ég fagna því að það er inni en ég lýsi jafnframt yfir vonbrigðum með hversu illa það er skilgreint hvernig menn ætla að fara að því að efla sveitarstjórnarstigið. Ýmislegt hefur verið reynt í þeim efnum en því miður hefur árangurinn ekki verið eins og menn hafa vænst. Ég tel hins vegar að efling sveitarstjórnarstigsins sé eitt af hinum stórum málum fyrir landsbyggðina vegna þess að við þurfum að eiga einingar úti um land sem geta ráðið við mörg þau verkefni sem ríkisvaldið er núna með. Við þurfum að breyta hlutföllunum í líkingu við það sem er í nágrannalöndum okkar, þ.e. meiri hluti hinnar opinberu þjónustu þarf að vera á höndum sveitarfélaganna. En til þess að það náist fram verða einingarnar að verða miklum mun stærri og öflugri en þær eru í dag.

Það þarf að stokka allt upp, það þýðir ekki að horfa á eflingu sveitarstjórnarstigsins einangrað. Þar þurfa t.d. samgöngumál að koma við sögu. Það blasir alveg við að ef við ætlum að ná þessu fram verðum við að skipuleggja framkvæmdir í samgöngumálum í samræmi við það sem að er stefnt í þeim efnum.

Ég tek eftir því í áætlun fyrir næsta tímabil að bent er á þetta varðandi þá þrjá byggðarkjarna sem nú er ætlunin að efla á næsta tímabili. Minnst er á þetta sérstaklega varðandi einn byggðarkjarna, þ.e. Ísafjörð, að þar þurfi að huga að samgöngumálum. En jafnsérkennilegt og það nú er að varðandi hinn þriðja byggðarkjarna, númer tvö væri þá Akureyri, þ.e. Miðausturland að þar er ekkert minnst á samgöngumál. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að ef menn ætla að ná þeim markmiðum sem sett eru um að gera Miðausturland að slíkum byggðarkjarna, sem ég er sammála að er afskaplega mikilvægt, þá verða samgönguúrbætur að eiga sér þar stað. Þar er um fjallvegi að fara og meðan það er munum við ekki geta tengt þetta á sama hátt og ef við værum búin að tengja þar með jarðgöngum eins og nauðsynlegt er, en því miður er ekki gert ráð fyrir því í samgönguáætlun.