132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[19:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér í framhaldi af því sem hv. þingmaður nefndi um álit Byggðastofnunar á árangri í síðustu byggðaáætlun þar sem nefnd eru ákveðin svæði á landinu þar sem hefur tekist nægjanlega vel til. Í merkilegri skýrslu sem kom út fyrir áramót, sem heitir Landfræðilegt litróf íslenska fasteignamarkaðarins, er einmitt getið um hluti sem varða það sem hv. þingmaður nefndi og vísaði til Byggðastofnunar, vegna þess að byggðarlög á þeim svæðum byggja flestöll á sjávarútvegi og þess vegna hlýtur löggjöf um það og þróun í þeirri atvinnugrein að hafa áhrif á málið.

Í skýrslunni segir á bls. 52 að sýnt hafi verið fram á það með mælingum að aflamarkskerfið hafi haft einhver neikvæð áhrif á búsetuþróun á minni þéttbýlisstöðum. Það segir líka í skýrslunni að hreyfanleiki veiðiheimilda stuðli að óvissu í afkomu vinnuafls vegna þess að vinnuaflið er ekki eins hreyfanlegt og veiðiheimildirnar og fjármagnið og vísað til þess að fræðimaður á sviði svæðahagfræði hafi fjallað um þetta og lagt til að menn settu vissar hömlur á flutning fjármagnsins og þar með veiðiheimildina til að draga úr afleiðingunum af því. Um þetta mál hefur því verið fjallað í þessari merku skýrslu.

Á bls. 47 í henni segir einmitt að til þess að breyta þeirri þróun sem þessi landsvæði eigi við sem búi við svona einhæft atvinnulíf og framleiðsluatvinnuvegi þá væri best að byggja upp atvinnustarfsemi sem byggi á öðrum grunni en þeim hefðbundna, t.d. stóriðju og ferðaþjónustu. Það eru því býsna athyglisverðar ábendingar að finna í þessari ágætu skýrslu, virðulegi forseti.