132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[19:53]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta liggur fyrir í þeirri ágætu skýrslu sem hv. þingmaður benti á og sýnir hversu víðfeðm byggðamálin eru, þau tengjast alls staðar inn. Ljóst er að þar sem íbúaþróunin hefur verið hvað neikvæðust hafa þau byggðarlög lifað að meira og minna leyti á sjávarútvegi og vissulega landbúnaði líka.

Það sem er merkilegt við þetta og hv. þingmaður bendir á er að stór hluti af þessari þróun var séður fyrir. Þegar ákveðið var að fara í aflamarkskerfið lá ljóst fyrir að það voru markmið um hagræðingu, það voru markmið um samþjöppun í greininni og þá lá alveg fyrir hvaða þróun yrði plús öll tækniþróunin sem menn bentu á. Þess vegna er það ekki síður alvarlegt að stjórnvöld skuli ekki hafa brugðist við því á nokkurn hátt. Það er einmitt bent á, eins og hv. þingmaður gerði, að byggja þarf á ýmsum möguleikum öðrum til þess að reyna að snúa þeirri þróun við eða stoppa hana öllu heldur, það er kannski fyrsta skrefið að reyna að stoppa hana.

Hluti af því sem menn hafa bent á er að eðlilegt væri að borguð séu auðlindagjöld sem renni m.a. til þessara verkefna. Ég held að það sé afskaplega mikilvæg umræða sem þurfi að fara í vegna þess að getum við ekki farið með tímann aftur á bak, við þurfum að horfa fram á við, og augljóst mál að við blasir á þessum svæðum að gera þarf sérstakt átak. Þess vegna eru það vonbrigði, eins og ég tók fram í ræðu minni og tók undir með hv. þingmanni, að í þeirri byggðaáætlun sem hér er skuli raunverulega ekki liggja neitt fyrir um það hvernig stjórnvöld hugsa sér að taka á þessum vanda. Maður verður því að draga þá ályktun af þessu að stjórnvöld virðast hafa gefist upp á því að leysa málið.