132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[10:38]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það var dálítið einkennileg uppákoma sem hér átti sér stað á níunda tímanum í gærkvöldi. Ég hafði rétt lokið seinni ræðu minni um byggðamál þegar hæstv. iðnaðarráðherra og byggðamálaráðherra rétti út höndina til mín og þakkaði mér sérstaklega fyrir góða og uppbyggilega ræðu. (Iðnrh.: Ég sagði skásta ræðan.) Skásta ræðan, aðeins er verið að draga hér úr, ég þori ekki að fullyrða en mig minnir að hæstv. iðnaðarráðherra hafi sagt að þetta væri besta ræðan sem hún hefði heyrt. Þetta var auðvitað mikið hrós því ég átti ekki von á þessu og allra síst frá hæstv. iðnaðarráðherra.

Það sem gerist næst er að hv. þm. Kristján Möller tekur til máls um fundarstjórn forseta og gerir athugasemd við að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki komið upp og fylgt málinu eftir eins og venja er, sem er auðvitað engin skylda eða nauðsyn. En þá kemur hæstv. iðnaðarráðherra upp með alveg hreint ótrúlega ræðu og ég ítreka og bendi á, undanskilur engan þingmann og segir að hér hafi verið niðurrifsstarfsemi, fólk hafi talað niður til fólks á landsbyggðinni. En sú var alls ekki raunin. Mér þykir þetta mjög miður. Ég held að þetta hafi verið ágætisumræða sem fór fram í gær og mjög uppbyggileg á köflum og í ræðu minni reyndi ég einmitt að benda á það sem var gott því það eru margir góðir punktar í stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er bara ekki farið eftir þeim og það er auðvitað gallinn, frú forseti.