132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[10:42]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Ég held að sú uppákoma sem hér varð í gærkvöldi sé nær einstök í þingsögunni, það verður að segja það alveg eins og er. Ég hef a.m.k. aldrei upplifað annað eins. Umræður höfðu farið fram í margar klukkustundir og fjöldi þingmanna tók þátt í þeim og ég vil fullyrða að a.m.k. flestir þeirra lögðu sig sérstaklega fram um að vera málefnalegir í umræðunni. Að vísu með einstaka undantekningum og þar held ég jafnvel að hluti stjórnarliða hafi verið verstur. En við skulum ekki elta ólar við það.

Hæstv. ráðherra kemur hér í lokin þótt búið sé að spyrja hæstv. ráðherra fjölda spurninga, það sé reynt að rökræða við hæstv. ráðherra út frá bæði skýrslunum og tillögunum sem hér lágu fyrir og hreytir ónotum í þingmenn. Frú forseti. Og það með slíkum eindæmum að engu er líkt. Það eru allir þingmenn settir í sama hóp og það er kannski dæmi um það hvað hæstv. ráðherra hefur fylgst illa með umræðunum að hæstv. ráðherra fullyrðir það hér áðan að það hafi þrír stjórnarliðar tekið þátt í umræðunum. Við sem fylgdumst með umræðunum vitum að það voru fimm stjórnarliðar sem tóku þátt í umræðunum. Ef þetta er dæmi um það, að vísu verður að taka það fram að þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hélt ræðu sína þá hvarf hæstv. ráðherra á braut. En hæstv. ráðherra var þó hér inni í salnum þegar við hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og ég áttum í rökræðum í andsvörum þannig að hæstv. ráðherra hlýtur að hafa orðið var við það að hv. þingmaður tók þátt í umræðunum.

Frú forseti. Það var annað sem einnig gerðist hér. Nokkrir þeirra þingmanna sem voru hér þegar þessi ósköp dundu yfir báðu um orðið um fundarstjórn forseta og, frú forseti, það verður einhver skýring að koma fram á því hvers vegna fundi var slitið án þess að þeir fengju orðið undir sama dagskrárliði og hæstv. ráðherra lét þessi orð falla.