132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[10:44]
Hlusta

Forseti (Jónína Bjartmarz):

Áður en lengra er haldið vill forseti segja eftirfarandi út af fundarlokum í gærkvöldi þegar rædd voru byggðamál: Þegar hv. 5. þm. Norðvest. hafði lokið síðari ræðu sinni seint á níunda tímanum í gær var mælendaskrá tæmd. Forseti hafði orðið þess áskynja að nokkrir þingmenn biðu þess hvort hæstv. iðnaðarráðherra tæki til máls í lok umræðunnar. Ráðherra gaf hins vegar forseta merki um að hún óskaði ekki eftir því að fara á mælendaskrá. Forseti tilkynnti því að fleiri hefðu ekki kvatt sér hljóðs og umræðunni væri lokið svo sem venja er til.

Hv. 3. þm. Norðaust. kvaddi sér þá hljóðs um fundarstjórn forseta og gerði aðallega að umræðuefni að hæstv. ráðherra tæki ekki til máls við lok umræðunnar. Síðan tók hæstv. iðnaðarráðherra til máls um fundarstjórn forseta og fór hörðum orðum um málflutning þingmanna í umræðunni. Á þeim orðum ber ráðherra vitaskuld ábyrgð. Undir ræðu ráðherra kvöddu nokkrir þingmenn sér hljóðs, einn þeirra bað um ræðu í málinu en það gat ekki orðið því umræðunni var lokið. Tveir þingmenn vildu bera af sér sakir. Forseti taldi að þótt ráðherra talaði þannig um málflutning þingmanna væru ekki efni til þess að þingmenn fengju að bera af sér sakir. Sá mikilvægi réttur hlýtur fyrst og fremst að gilda þegar bornar eru persónulegar ásakanir á þingmenn, því hvar endaði það annars?

Loks munu tveir hv. þingmenn hafa kvatt sér hljóðs um fundarstjórn forseta. Misskilningur olli því að forseti gaf þeim ekki orðið heldur sleit fundi. Það þykir forseta miður því það var ekki ásetningur forseta að hlífa sér við umræðum um fundarstjórnina né heldur að hlífa ráðherra við viðbrögðum þingmanna við orðum hennar.