132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[10:48]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að ræða og skýrsla hæstv. byggðamálaráðherra í gær hafi að mörgu leyti markað endalok byggðastefnu stjórnvalda eins og hún hefur verið rekin. Vonbrigðin með skýrslu hæstv. ráðherra voru gífurleg. Ég held að andleg ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar hafi aldrei komið betur fram hér á Alþingi en einmitt í gær, bæði með framsögu og allri framgöngu hæstv. ráðherra. Hvort tveggja var náttúrlega hæstv. ráðherra til skammar hvernig hún byrjaði umræðuna og hvernig hún lauk henni. Skýrslan var með ólíkindum slöpp, sama skýrslan ár eftir ár, ekkert tekið á því sem máli skiptir.

Ég heyri hæstv. ráðherra t.d. aldrei minnast á þá stöðu sem upp er komin hvað varðar eina best heppnuðu byggðaaðgerð seinni tíma, sem er Háskólinn á Akureyri. Nú er Háskólinn á Akureyri í þeirri stöðu eftir fjársvelti og niðurskurð, sem er uppi núna í starfsemi skólans, út af nemendafjölgun og þeirri prýðilegu starfsemi sem þar hefur verið rekin, að skólinn er að leggja niður tvær deilda sinna og vísar frá hundruðum nemenda á ári. Hæstv. byggðamálaráðherra kom hvergi að þessum málum sem eru raunveruleg byggðamál, eru byggðamálin sem ættu að vera hér til umræðu í stað þessarar úreltu allsherjarlausnar sem hæstv. ráðherra leggur alla áherslu á. Hún telur byggða- eða þjóðfélagsmál almennt ekki til umræðu nema þau taki til einhvers sem er í anda þeirra allsherjarlausna sem hér eru yfirleitt til umræðu. Gífurleg vonbrigði held ég að sé yfirskriftin yfir framgöngu hæstv. byggðamálaráðherra hérna í gær og það hvernig hún endaði umræðuna í gærkvöldi hlýtur að fara á spjöld sögunnar sem einhver ruddalegasta framganga ráðherra sem um getur í seinni tíma sögu þingsins.