132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[10:53]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það skal upplýst að ég var einn þeirra sem óskaði eftir að fá að bera af mér sakir hér í gærkvöldi en var neitað um það.

Hæstv. ráðherra sagði í lok umræðunnar að umræðan hefði ekki verið málefnaleg, hún hefði verið neikvæð og nánast raus.

Ég flutti hér tvær ræður í gær. Í fyrri ræðunni rifjaði ég upp það sem hafði verið skrifað í skýrslum fyrir stofnun sem ráðherra hefur undir sínu ráðuneyti, Byggðastofnun, um það hvaða afleiðingar mundu fylgja breytingum í sjávarútvegi. Ég fór yfir það til upprifjunar fyrir ráðherra og formann nefndarinnar sem fær málið til umfjöllunar. Ég held að það hafi verið nauðsynlegt, sérstaklega í ljósi þess að ráðherra kallar það raus, að fara hér með staðreyndir og viðvaranir sem ráðherranum voru gefnar. Það er greinilegt að það er til lítils að vinna skýrslur fyrir þennan ráðherra um leiðbeiningar um það hvað framtíðin beri í skauti sér ef það er kallað raus og ómálefnalegt o.s.frv.

Ég fór yfir í samgöngumálin og talaði um hvað þau væru nauðsynleg, ég vék að menntamálum, ég vék að vanda rækjuiðnaðarins, ferðamálum og auknum möguleikum þar. Það var langt frá því að allt væri neikvætt í þeim ræðum sem ég flutti. En ég skil vel að ráðherranum hafi fundist erfitt að hlýða á þegar ég var að fara yfir viðvaranir um það hver framtíðin yrði ef stefnu ríkisstjórnarinnar yrði fylgt.

Að við tölum niður til sjávarbyggða, ég mótmæli því sem rakalausri lygi, hæstv. forseti. Við tölum ekki niður til sjávarbyggða, við erum að vara við því sem þar hefur skeð.