132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[11:04]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta til að lýsa því yfir að ég er ekki alveg sammála því áliti hæstv. forseta sem kom fram áðan að til að þingmenn geti komið hér upp og borið af sér sakir þurfi nánast að vera um að ræða einhvers konar einkahagi eða alvarlegar ásakanir á hendur ákveðnum persónum, nafngreindum persónum.

Ég verð að segja að þau ummæli sem féllu hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra í gær, í lok umræðunnar, komu mjög óvænt því við höfðum ekki orðið vör við það í umræðunni að ráðherra væri svona mikið niðri fyrir. En ráðherra sá ástæðu til að tala um þingmenn alla, að við hefðum verið með neikvæða umræðu, nánast raus, árásir og niðurrif. Verið að niðurlægja landsbyggðina og landsbyggðarfólk. Þetta eru þungar ásakanir á hendur okkur þingmönnum sem vorum í umræðunni í gær og tókum þátt í henni af alefli. Margir okkar notuðu ræðutímann til fulls, vorum í andsvörum við þá fáu stjórnarliða sem tóku þátt í umræðunum. Töluðum til ráðherra. Studdum mál okkar góðum gögnum, m.a. nýjustu tölum Hagstofunnar um íbúafjölda á landsbyggðinni, allt saman mjög góðar rökstuddar málefnalegar ræður. Það var enginn með neitt niðurrif eða skítkast í garð landsbyggðarinnar. Fólk getur bara lesið þessar ræður. Ég hygg að margir hafi fylgst með umræðunni í gær, kannski ekki síst landsbyggðarfólk. Ég hygg að langflestir þeirra sem fylgdust með umræðunni í gær sjái að hér var ekkert neitt viðlíkt því á seyði sem hæstv. ráðherra lýsir.

Þess vegna tel ég það alveg fyllilega réttmætt — þó ég virði það að sjálfsögðu að hæstv. forseti hafi komið með útskýringar á því sem gerðist hér í gær og beðist velvirðingar á því. Ég virði það að sjálfsögðu. En ég tel að þau ummæli hæstv. byggðamálaráðherra séu svo alvarleg í garð okkar þingmanna að við hefðum fyllilega átt rétt til að fá að koma hér upp og bera af okkur sakir í þessu máli. Því þetta var mjög ósanngjarnt af hæstv. byggðamálaráðherra. Hún ætti að taka flokkssystur sína til fyrirmyndar, hæstv. forseta, Jónínu Bjartmarz, og viðurkenna mistök sín. Það væri mannsbragur að því í staðinn fyrir að koma hér og halda áfram með sama gjammið og skætinginn og var undir lok fundar í gærkvöldi.