132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að mörgum hafi brugðið í brún þegar kynnt voru áform um stórfelldar nýjar álversframkvæmdir á næstu fimm til sjö árum. Stækkun álversins í Straumsvík, nýtt álver við Helguvík og álver að eigin vali á Norðurlandi og nú síðast hugmyndir um álver í Þorlákshöfn. Ekki er enn séð fyrir endann á stóriðjuframkvæmdum fyrir austan og framkvæmdir við álver á Grundartanga eru rétt að hefjast.

Það var fyrirséð að þessar gríðarlegu framkvæmdir mundu keyra upp gengi krónunnar, valda mikilli þenslu, viðskiptahalla, háum stýrivöxtum Seðlabankans, miklum vaxtamun við útlönd, innflæði fjármagns og mjög skerta samkeppnisstöðu almennra útflutnings- og nýsköpunargreina. Enda hefur sú orðið raunin. Talað er um ógnarjafnvægi í efnahagsmálum. Aðrar atvinnugreinar voru beðnar að sýna biðlund meðan kúfurinn af núverandi stóriðjuframkvæmdum gengi yfir. Yfirlýsingar um uppbyggingu nýrra álvera hlýtur að setja allt annað atvinnulíf í uppnám svo og þróun á vöxt nýrra atvinnugreina. Áhrifin munu koma fram þegar á þessu ári. Gengi krónunnar yrði áfram hátt. Stýrivextir eru nú þegar háir og því lítið svigrúm til að beita þeim til stýringar verðbólgu og þenslu verði gefnar nýjar álversvæntingar.

Þeim skoðunum vex nú mjög ásmegin að nóg sé komið í bili af álverum. Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar Group flutti kröftuga ræðu á nýafstöðnu viðskiptaþingi. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég er sannfærður um að jafnvel þótt Íslendingar nái að komast í hóp stærstu álframleiðenda heims og mundu virkja alla hagkvæmustu virkjunarkosti landsins, mundi arðsemi þess og hagur fyrir íslensk samfélag aldrei verða meiri en sem nemur framlagi eins öflugs útrásarfyrirtækis. Það er kominn tími til að þingmenn hugsi sig tvisvar um áður en þeir tala fyrir fleiri álverum.“

Áfram sagði Ágúst Guðmundsson:

„Hvaða útflutningsgreinar munu þola samfellt uppbyggingarskeið í stóriðju í nær áratug, frá 2003 til 2013? Afleiðingin gæti einfaldlega orðið sú að útflutningur aukist í raun og veru ekkert þegar upp er staðið heldur færist útflutningsframleiðslan á milli greina. Þær útflutningsgreinar sem hafa háan virðisauka og byggja á þekkingu og hugviti hverfa einfaldlega á braut.“

Í leiðara Dagblaðsins í gær segir, með leyfi forseta:

„Öll viðvörunarljós í hagkerfinu blikka út af stóriðjustefnunni sem keyrð er áfram af ríkinu og atvinnulífinu blæðir.“

Nokkur ferðaþjónustufyrirtæki sendu frá sér yfirlýsingu í gær. Þar segir að framtíð ferðaþjónustu sé ógnað með stefnu stjórnvalda í virkjana- og stóriðjumálum. Og orðrétt segir, með leyfi forseta:

„Stórfellt rekstrartap blasir nú við fjölda fyrirtækja í ferðaþjónustu sem er afleiðing virkjanastefnu og hás gengis krónunnar.“

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir í Viðskiptablaðinu 10. júní sl., með leyfi forseta:

„Við sáum fyrir okkur að geta farið í gegnum þetta tímabil stóriðjuframkvæmda með gengisvísitöluna kringum 120 og hefðum líklega lifað það af. Núverandi gengi gerir stöðu sjávarútvegsins hins vegar mjög erfiða.“

Og Friðrik sagðist hugsa til þess með hryllingi ef þetta ástand verður framlengt með tilkomu nýrra álvera.

Í Morgunblaðinu 8. febrúar sl. í forustugrein er fjallað um áhrif stóriðjunnar á aðrar útflutningsgreinar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á sínum tíma vildu menn álver til að auka fjölbreytnina í einhæfu atvinnulífi Íslendinga, sem þá byggðist fyrst og fremst á sjávarútveginum. Nú benda menn eins og Ágúst Guðmundsson á að stóriðjustefnan geti beinlínis unnið gegn fjölbreytni í atvinnulífi.

… verði áframhald á álvers- og virkjanaframkvæmdum muni krónan halda styrk sínum. Það muni aðrar útflutningsgreinar ekki þola og iðnfyrirtæki geti farið að pakka saman og flytja starfsemi sína.“

Morgunblaðið lýkur umfjöllun sinni þannig:

„Þetta eru röksemdir, sem verður að taka með í reikninginn þegar ákvarðanir eru teknar um áframhaldandi uppbyggingu stóriðju hér á landi.“

Því leyfi ég mér að spyrja, frú forseti. Hefur ríkisstjórnin í hyggju að endurskoða stefnu sína í stóriðjumálum og áform um stóraukin umsvif álfyrirtækja hér á landi, m.a. í ljósi vaxandi gagnrýni forustumanna í atvinnulífi og þeirra afleiðinga sem þessi stefna (Forseti hringir.) hefur í efnahagslífinu og á erfiða stöðu útflutningsgreinanna?