132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:20]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka hv. málshefjanda Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta mál upp á hinu háa Alþingi. Því miður kom það í ljós í máli hæstv. forætisráðherra sem ég óttaðist. Stefnan er aðeins ein. Það er aðeins eitt sem hægt er að gera og það er að fjárfesta í álframleiðslu. Það á ekki að taka tillit til annarra atvinnugreina eða annarra hagsmuna hér á landi. Það á ekki að taka tillit til gengisþróunar og eins og kom fram í máli Ágústs Guðmundssonar, stjórnarformanns Bakkavarar, mundi 10 ára hágengisstefna ganga hér af öðrum útflutningsgreinum dauðum. Það á ekki að taka tillit til annarra útflutningsgreina, hátækni- og þekkingarfyrirtækja, ferðaþjónustunnar. Það á ekki að taka tillit til byggðamála því að annars væri suðvesturhornið ekki bara í fókus nú um sinn, svo er ekki að heyra, og það á ekki að taka tillit til náttúruverndar- og umhverfismála. Ef það væri gert væri búið að forgangsraða virkjunarkostunum og taka tillit til áhrifa þeirra á náttúruna.

Við skulum athuga það að aðeins u.þ.b. 5% orkugjafa í heiminum eru endurnýjanleg. Þeir munu hækka í verði, verðmæti þeirra mun aukast á næstu árum og áratugum. Það er heilög skylda okkar hér — oft er talað um heilaga skyldu til að nýta auðlindirnar og nýta orkugjafana — að taka tillit til framtíðarinnar í þeim efnum, hafa einhverjar áætlanir sem duga og taka tillit til annarra atvinnugreina og þess sem fólk vill gera hér á landi. Það virðist ekki upp á teningnum hjá þessari ríkisstjórn. Hér er bara tekið tillit til hagsmuna Framsóknarflokksins að því er virðist og það með fullum stuðningi samstarfsflokksins í ríkisstjórn sem dregst áfram í þessari vegferð, u.þ.b. orðalaus flesta daga ársins.