132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:22]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt mál, og sú er stefna ríkisstjórnarinnar, að halda áfram að nýta orkuauðlindir landsins til að efla hér hagvöxt, auka kaupmátt og bæta lífskjörin. Sá er tilgangurinn með því að nýta orkuauðlindir landsins.

Hér er talað um þrjár stórar framkvæmdir sem hugsanlega gætu komið til framkvæmda á næsta áratug eða svo. Ég tel sjálfsagt mál að skoða þau mál í mikilli alvöru og sjá hvort ekki er hægt að koma þeim öllum fyrir á þessu tímabili en auðvitað þá og því aðeins að hægt sé að afla orkunnar með skynsamlegum hætti á þessu tímabili, þá og því aðeins að hægt sé að gera það með ábyrgum hætti gagnvart náttúrunni eins og eðlilegt er og gagnvart útblástursmálum og öðru þess háttar, og þá og því aðeins að við komum því fyrir innan skynsamlegra marka hvað varðar efnahagsstjórnina í landinu almennt og getum rúmað þessar framkvæmdir innan hagkerfis okkar.

Ég tel reyndar, alveg eins og forsætisráðherra, að þetta sé vel hægt. Þetta eru ekki meiri stærðir en svo að í okkar stóra hagkerfi sem nú er orðið getum við vel rúmað þessar framkvæmdir án þess að öðrum sé rutt til hliðar. Það er þess vegna misskilningur að þetta mál snúist um annaðhvort álversframkvæmdir eða eitthvað annað. Við getum vel gert hvort tveggja og byggt upp í mörgum greinum atvinnulífsins, eins og eðlilegt er og sjálfsagt.

Um það ætti ekki að þurfa að rífast á Alþingi að rétt sé að bæta lífskjörin í landinu, auka framleiðsluna, verðmætasköpunina til að geta fjármagnað þau góðu mál sem margir hér á Alþingi vilja koma í framkvæmd. Það er auðvitað fáránlegt að hlusta á málflutning Samfylkingarinnar sem talar tveimur tungum og leikur tveimur skjöldum í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.