132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:26]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra ber saman virkjanir nú og virkjanir frá fyrri tíð, nefndi sérstaklega Búrfellsvirkjun. Munurinn á virkjunum nú og fyrr á tíð er sá að nú er virkjað í þágu eins kaupanda. Eini kaupandinn að orkunni frá Kárahnjúkavirkjun er fyrirtækið Alcoa. Það deilir enginn um það hvort nýta eigi náttúruauðlindir Íslands — menn deila um það hvernig eigi að nýta fallvötnin. Á að nýta þau t.d. í þágu ferðaþjónustu eða í þágu erlendrar stóriðju? Um það er deilan.

Þegar rætt var um Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma var hart deilt um þá virkjun innan þings og utan. Annars vegar var yfirgnæfandi meiri hluti alþingismanna, ríkisstjórn með aðkeyptum sérfræðingum sem fengið höfðu það verkefni að réttlæta stóriðjustefnu Framsóknarflokksins. Þegar ég segi að aðkeyptir sérfræðingar hefðu fengið það verkefni verða menn að hafa í huga að sérfræðingar ríkisstjórnarinnar upp til hópa, meira að segja sérfræðingar Landsvirkjunar, þeir sem töluðu ákafast fyrir framkvæmdinni á vegum ríkisstjórnarinnar, sögðu jafnframt að ef þeir rækju einkafyrirtæki mundu þeir ekki undir nokkrum kringumstæðum ráðast í þessa framkvæmd með hliðsjón af arðsemi fjárfestingarinnar. Það var með öðrum orðum af pólitískum ástæðum sem ráðist var í þessa framkvæmd.

Hin fylkingin var sennilega fjölmennari þótt hún væri fámenn hér innan dyra því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð var eini stjórnmálaflokkurinn á Alþingi sem barðist gegn þessum áformum. Allir vissu að tímabundinn og afmarkaður uppgangur mundi fylgja í kjölfar þess að hundruðum milljarða yrði pumpað inn í efnahagskerfið. Við minntum á að hver einasta króna í virkjunarframkvæmdirnar yrði tekin að láni á ábyrgð skattborgarans og þyrfti að skila arði og vera til góðs fyrir efnahagslífið í heild sinni. Um arðsemina vitum við ekki enn, þar höfum við bara vísbendingar, en hinar efnahagslegu afleiðingar blasa við. Nú er spurningin þessi: Á að halda enn lengra út á þessa glapræðisbraut?