132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:36]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það má að vissu leyti taka undir að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur sem þjóð til að efla hagvöxt og bæta lífskjör í landinu að við nýtum auðlindir okkar, þar með talið orkulindirnar, að sjálfsögðu. En ég held að við séum núna komin á það stig að við verðum að fara að hugsa okkar gang. Við verðum að fara að hugsa okkar gang í þessum efnum. Ég held að það sé orðið nauðsynlegt fyrir okkur að grípa til aðgerða til að kæla hagkerfið niður. Sú gengisstefna sem nú er í gangi er að verða okkur ansi dýr. Hún bitnar ekki bara á sjávarútveginum sem slíkum, hún bitnar líka á launakjörum fólks í landinu, afkomumöguleikum fólks í landinu. Af því við vorum að tala hér um byggðamál í gær — ég sé að hæstv. byggðamálaráðherra er horfin úr salnum, hún hefði gjarnan mátt vera hér og heyra það sem ég ætla að segja núna.

Við vorum að tala um byggðamál í gær. Ég held að sjómenn mjög víða um land og fjölskyldur þeirra geti til að mynda tekið undir það að hágengisstefnan hefur valdið mjög mikilli kjararýrnun hjá þeirri stétt, mjög mikilli kjararýrnun. Þar erum við að tala um háar fjárhæðir. Skip sem til að mynda selja afurðir sínar í dollurum. Þetta er mjög alvarlegur hlutur. Það er líka mjög alvarlegur hlutur hversu mörgum störfum við höfum tapað í sjávarútvegi á undanförnum missirum. Á þetta allt saman hefur verið bent.

Stór hluti af okkar hátækniiðnaði hefur skapað mörg verðmæt störf, mjög verðmæt störf, stórkostleg fyrirtæki eins og t.d. Marel. Ég vil leyfa mér að benda á að hágengisstefnan hefur valdið þessum fyrirtækjum miklum búsifjum ekki bara vegna þess að tekjur þeirra hafa dregist saman heldur líka vegna þess að viðskiptavinunum hefur fækkað og efnahagur þeirra versnað. Við getum ekki bæði haldið og sleppt í þessum efnum og eins og ég sagði áðan og við höfum varað við í Frjálslynda flokknum, nú síðast miðstjórn flokksins: Það er kominn tími til að við íhugum gang okkar mjög gaumgæfilega í þessum efnum. Hvert viljum við stefna?