132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[11:52]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mjög athyglisvert mál sem vekur upp margar áleitnar spurningar í miklu stærra samhengi um séreign og þjóðareign á auðlindum. Vissulega kemur málið til með umræddum hætti fyrir þessum áratugum síðan. En ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra að því — sérstaklega í því ljósi að yfir stendur umræða um hvernig við tryggjum best eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum, í stjórnarskrá o.s.frv. — hvort það væri ekki miklu sanngjarnari og betri leið að gera samning við Landsvirkjun um leigu, um einhvers konar afsal eða leigu á samningum um að nýta þessi réttindi, sem eru afmörkuð í tíma. Þar yrði sérstaklega tekið til þess hvernig að því verði staðið að skila þeim til baka en um yrði að ræða einhvers konar leigusamning og réttindaafsal eða réttindasáttmála til handa Landsvirkjun frá ríkinu. Væri það ekki betri leið að fara í stað þess að afhenda afsalið að eignarhaldinu yfir til fyrirtækisins sem getur skipt um eignarhald á næstu árum o.s.frv. Ef fram fer sem horfir mun fyrirtækið sjálfsagt verða selt og einkavætt einhvern tímann í framtíðinni. Er ekki miklu réttlátara og sanngjarnara til að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum og þessari auðlind — og þeim mörgu áleitnu spurningum öðrum sem uppi eru, svo sem um eignarhaldið á Landsvirkjun, hvernig sú eign er til komin og skiptinguna á milli borgar, ríkis og Akureyrarbæjar? Og hvernig fer með annað svæði þarna upp með Þjórsá? En væri það ekki mikið vitrænna og skynsamlegra að afmarka í tíma einhvers konar réttindasáttmála til Landsvirkjunar um nýtingu á þessum réttindum og þessari afmörkuðu auðlind?