132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[11:54]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil segja það í upphafi, út af því sem hv. þingmaður sagði, að ég hef afskaplega miklar efasemdir um að rétt sé að selja fyrirtækið Landsvirkjun. Ég tel að það fyrirtæki sé með þeim hætti að eðlilegt sé að það sé í eigu ríkisins. Hins vegar má vel vera að það geti komið til greina að einhverjir aðrir komi eitthvað inn í það í lengri framtíð.

En vandinn við þá leið sem hv. þingmaður benti hér á er sá að ríkið gerði þennan samning á sínum tíma gagnvart meðeigendum sínum í Landsvirkjun og lagði þetta fram inn í þann samning. Þannig að ef ríkið stendur ekki við það þá kann það að vera skaðabótaskylt gagnvart fyrirtækinu eða meðeigendum sínum með einhverjum hætti. Þar sem hægt er að lagfæra það þannig að algerlega sé staðið við þann samning eins og hann var í upphafi, eins og öll efni standa til, þá er það hreinlega niðurstaðan að það sé rétt af ríkisins hálfu að gera það. Að gera nákvæmlega það sem samið var um 1965 og ríkið getur það, enda heimili Alþingi það með þessu frumvarpi.

En ég tel hins vegar rétt að farið sé yfir þau sjónarmið sem hv. þingmaður kom hér með við umræðu um þetta mál í nefnd. Aðalatriðið er að sjálfsögðu af ríkisins hálfu að þetta mál sé leyst þannig að fyrirtækið geti starfað með eðlilegum hætti eins og stofnað var til með byggingu þessarar virkjunar og menn gerðu í góðri trú.