132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[11:56]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega er það rétt. En nú hafa svo margar og margvíslegar forsendur breyst á þessum 40 árum frá því að Landsvirkjun var stofnuð. Þjóðlenduúrskurðurinn hefur t.d. gengið og öll þau mál, óbyggðamálin. Það hefur svo margt gjörbreyst að kannski er hæpið að líta á það sem einhvers konar samningsrof eða sáttmálarof að afsala fyrirtækinu réttindum og nýtingu á auðlindunum til lengri tíma og breyta þannig forsendum samningsins frá því fyrir 41 ári.

Þess fyrir utan vil ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra lýsir því yfir að hann telji að það eigi ekki að selja Landsvirkjun eða einkavæða. Ég held að það hefði verið mikið óheillaspor. Það hefur oft mátt skilja hæstv. iðnaðarráðherra þannig á liðnum missirum að hún telji að það eigi að selja Landsvirkjun eða stefna að einhvers konar einkavæðingu á fyrirtækinu. En ég vil fagna því að hæstv. forsætisráðherra lýsir því yfir afdráttarlaust og skýrt að Landsvirkjun eigi ekki að selja eða einkavæða. Þannig að það verður þá alla vega ekki á döfinni í hans forsætisráðherratíð. Ég vil fagna því og taka undir þá skoðun forsætisráðherra.