132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:04]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni áhugavert mál, kannski bæði lögfræðilega og sögulega. Ég vek athygli á því að í athugasemdum með frumvarpinu er að finna bráðskemmtilega, athyglisverða og áhugaverða greinargerð, sérstaklega fyrir áhugamenn um sagnfræði. Þar eru tíndar til skemmtilegar upplýsingar um þróun sögunnar varðandi vatns- og landsréttindi á þessu svæði.

Þetta frumvarp til laga kemur til vegna þess að fallið hefur úrskurður. Tilkalli til Landsvirkjunar til eignarhalds á þessu svæði og réttinda þar hefur verið hafnað. Þetta svæði telst því þjóðlenda og ríkið fer þar með eignarrétt samkvæmt lögum.

Landsvirkjun er hlutafélag í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, eins og tilgreint er á bls. 5 í þessu frumvarpi. Ég velti því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum eigi að láta Landsvirkjun hafa þetta svæði og þessi réttindi án endurgjalds. Væri ekki nær að Landsvirkjun tæki þessi réttindi og þetta landsvæði á leigu til langs tíma? Hér var talað um að líftími virkjunarinnar yrði a.m.k. 100 ár í viðbót, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði fyrr í dag, að hér yrði hreinlega gerður leigusamningur við ríkið og síðan yrði tekjunum af þessum samningi varið til uppbyggingar í héraðinu. Oft hefur réttilega verið bent á að Sunnlendingar njóti allt of lítils ávaxtanna af þeim miklu orkuverum sem hafa verið reist á landsvæðinu. Er ekki kominn tími til að gaumgæfa hvort ekki sé komin aðstaða til að þeir fari að njóta þeirra?