132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:07]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að mæla nokkur orð um þetta mál. Ég tel ástæðu til að velta þeim hlutum fyrir sér.

Ég get vel skilið það að menn vilji fara einfaldar leiðir til að leysa úr vanda af þessu tagi og eins og hæstv. forsætisráðherra sagði er hægt að standa fullkomlega við samninginn sem gerður var á sínum tíma með þeim gjörningi sem hér er lagður til. Þetta þarf þó ekki endilega að vera eina leiðin í málinu.

Ég tel að það sé ástæða til að menn a.m.k. velti fyrir sér hvaða stöðu þjóðarauðlindin komi til með að hafa í framtíðinni. Það er mín skoðun og reyndar von og trú að menn muni við endurskoðun stjórnarskrárinnar gera ráð fyrir því að þjóðarauðlindir verði þar inni, að ákvæði verði um auðlindir í þjóðareign, orkuauðlindir hafsins og ýmsar aðrar auðlindir. Menn mundu styðjast við tillögur auðlindanefndar sem undirbjó að hið opinbera eða Alþingi geti tekist á við þetta verkefni, sem er að mínu viti eitt af þeim allra stærstu í stjórnmálum á Íslandi sem stendur, þ.e. endurskoðun stjórnarskrárinnar og frágangur á þjóðarauðlindum ásamt öðrum stórum málum sem menn hafa rætt í sambandi við endurskoðunina.

Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvernig þessum auðlindum verði fyrir komið, orkuauðlindum sem raforkufyrirtækin í landinu nýta sér. Ef við skoðum hugmyndir auðlindanefndar er það nokkuð einfalt gagnvart auðlindum eins og þessum. Menn gera hreinlega ráð fyrir því að annaðhvort fái sá sem nýtir auðlindina hana í hendur með þeirri kvöð að hann skili auðlindinni og landinu aftur í sama horfi og hann tók við henni, eftir þann afmarkaða tíma sem gert er ráð fyrir að viðkomandi hafi auðlindina í sínum höndum. Á hinn bóginn gæti hann skilað til baka auðlindinni ásamt þeim mannvirkjum í fullum rekstri sem reist hafa verið á viðkomandi stað til að nýta hana. Ég held að ágætisdæmi, eða módel fyrir slíkt, sé t.d. samningurinn um Hvalfjarðargöngin. Sá aðili sem fékk það verkefni fékk í hendur að gera göngin, reka þau ákveðinn tíma og skila þeim skuldlausum en í fullum rekstri til ríkisins. Þannig væri í sjálfu sér einfalt að ganga frá nýtingu þjóðarauðlinda. Þegar nýtingartíma lýkur er hægt að bjóða aftur út nýtingarréttinn handa þeim aðilum sem þá væru tilbúnir að sækjast eftir honum.

Huga þarf vandlega að því hvaða auðlindir við viljum hafa fyrir þjóðarauðlindir. Mér finnst að það liggi í augum uppi að úr því að ríkið hefur eignarhald á þeim auðlindum sem hér um ræðir eigi menn að sjá til að þær verði áfram í eigu almennings þótt menn hafi kannski mismunandi skoðanir á því hvort orkumannvirkin og reksturinn eigi að vera í höndum hins opinbera. Það er allt annað mál. Þótt ég taki undir að ástæðulaust sé að ræða um sölu á Landsvirkjun þá geri ég mér grein fyrir því að aðrir geti haft aðra skoðun á því. Ég vil taka þá umræðu upp og hef til þess fullan rétt. Yrði það gert teldi ég að sú umræða ætti að snúast um rekstur Landsvirkjunar og eignarhald á mannvirkjunum, en menn eigi að skoða vandlega að orkulindirnar sjálfar verði í þjóðareign. Þeir sem nýta þær yrðu að greiða fyrir aðganginn að þeim eða nýtinguna á þeim og úr því yrði skorið með jafnræðisreglum hverjir fái og hvaða verð skuli greitt.

En svo er annar hlutur sem ég vil ræða í samhengi við þetta. Í gögnum málsins er farið yfir stofnun Landsvirkjunar og eignarhaldið á henni. Ég hef margoft rætt um það í sölum Alþingis að þar hafi ekki verið vel að málum staðið. Að mörgu leyti var illa staðið að því frá hendi hins opinbera að því leyti að Landsvirkjun skyldi sett saman með því eignarhaldi sem um ræðir, þ.e. að Reykjavíkurborg eigi þarna 45–46% og Akureyringar tæp 5%. Eignarhaldið á þessum dýrmætu orkulindum eða orkufyrirtækjum öllu heldur hefur fyrst og fremst orðið til fyrir forgöngu hins opinbera. Menn hafa talað um gríðarlegar upphæðir og ég held að hv. þm. Jón Bjarnason ætti að líta svolítið í eigin barm og velta fyrir sér hvort skynsamlegt hafi verið að koma í veg fyrir lausn þessa máls. Þeir vinstri grænir sem tókst að koma í veg fyrir lausn málsins í vetur þurfa að standa ábyrgð á því að það gæti kostað ríkissjóð meiri peninga að leysa það síðar og orðið flóknara en hefði þurft að vera.

Ég dreg athygli að einu sem kemur hér fram í gögnum og ég ætla aðeins að fara yfir það. Hér er kafli um stofnun Landsvirkjunar og framlög eigenda og þar er talið upp hvað samningsaðilar lögðu fram í upphafi. Það var sem sagt eignarhlutur í Sogsvirkjun — ríkissjóður lagði hann fram — og vatnsréttindi sem ríkissjóður átti í Soginu ásamt lóðum. Síðan var réttur til að, með leyfi forseta, „hagnýta allt vatnsafl Sogsins, ásamt nauðsynlegum miðlunarvirkjum.

3. Vatnsréttindi vegna 210 MW virkjunar í Þjórsá við Búrfell, ásamt landi …“

Ég les ekki meira um það en síðan kemur, með leyfi forseta: „Með setningu laga nr. 37/1971 voru gerðar verulegar breytingar á lögum nr. 59/1965, um Landsvirkjun. Hinar helstu voru þær að skv. 2. gr. var bætt við 4. gr. laganna svohljóðandi málsgrein:

„Landsvirkjun tekur enn fremur við öllum vatnsréttindum og réttindum ríkisins til virkjana í Tungnaá við Sigöldu og Hrauneyjafoss …“

Samkvæmt þessu er Landsvirkjun heimilt að reisa 210 MW raforkuver við Þjórsá við Búrfell, 170 MW raforkuver í Tungnaá við Hrauneyjafoss og 170 MW raforkuver í Tungnaá við Sigöldu ásamt aðalorkuveitum.

Öll þessi réttindi sem þarna voru færð til Landsvirkjunar voru gríðarlega mikils virði en það kemur fram að „engar breytingar urðu þó á eignarhlut aðila“ við þessa ákvörðun. Ég segi þess vegna að þetta sé enn eitt dæmið um það að þarna hafi menn haldið illa á málum fyrir hönd ríkisins gagnvart meðeigendum sínum sem eru Akureyringar og Reykvíkingar. Síðan hefur þessi aðgangur að kannski hagkvæmustu auðlindum okkar í vatnsafli, sem Landsvirkjun hefur nýtt sér á undanförnum árum og hefur orðið til að byggja upp þá auðlegð sem liggur í Landsvirkjun, verið færður á silfurfati í hendur þessara meðeigenda ásamt auðvitað okkur hinum sem eigum sameiginlega ríkissjóð. Ég ætla ekki að fara yfir það hvernig þessar eignir urðu til sem voru stofninn að Landsvirkjun en þær eru einungis örlítill hluti af verðmæti Landsvirkjunar í dag. Þess vegna held ég því fram, og hef margsagt það í sölum Alþingis, að það eigi að skoða eignarhald á öðrum virkjunum og raforkufyrirtækjum í þessu landi — þá er ég t.d. að tala um Rarik, með það fyrir augum hvort ekki eigi að afhenda eignarhlut í þeim til fólksins í þeim sveitarfélögum sem hefur byggt upp þau mannvirki með viðskiptum sínum við Rarik og að leitast við að rétta svolítið af þá vitleysu sem var gerð með því að taka eignaraðilana inn í Landsvirkjun með þeim hætti sem gert var. Auðvitað verður ekki snúið þar til baka.

Menn mega ekki taka orð mín svo að ég ætlist til þess að menn fari eitthvað að rífast um eignarhald Reykjavíkurborgar og Akureyringa í Landsvirkjun. Ég bendi einfaldlega á hvernig þessir eignarhlutar hafa orðið til og að það sé óeðlilegt annað en að menn reyni með einhverjum hætti að bæta fyrir mistökin. Þeim hafa verið rétt gríðarlega mikil verðmæti fram yfir aðra landsmenn með þeim samningum sem þarna voru gerðir. Auðvitað á að grípa tækifærið núna þegar verið er að endurskipuleggja raforkugeirann, grípa tækifærið til að rétta þessa hluti dálítið af. Það er vel hægt að gera það. Ég sé fyrir mér að Rarik verði þá að hlutafélagi ásamt t.d. Orkubúi Vestfjarða og að sveitarfélögunum í landinu verði metinn hlutur og þau eignist hlutabréf í því fyrirtæki. Þau sveitarfélög geta þá selt þann hlut sinn ef þau kjósa en a.m.k. yrði með þeim hætti búið til öflugt fyrirtæki sem gæti tekið þátt í samkeppninni á raforkumarkaðnum sem menn eru að reyna að skapa hér og getur engan veginn orðið til með þeim hætti að menn steypi hér saman Rarik og Landsvirkjun ásamt Orkubúi Vestfjarða og búi til einhvern gríðarlega stóran risa á þessum markaði. Svo er enginn annar til að keppa við hann en Orkuveitan í Reykjavík sem Reykvíkingar eiga að langstærstum hluta líka.

Þarna finnst mér að menn þurfi að fara vandlega yfir málin og ég sé ekki að það liggi neitt beint við að halda því fram að ríkissjóður, eða landsmenn í gegnum ríkissjóð, eigi Rarik. Það liggur að mínu viti ekki fyrir, það má alveg eins líta til þess með hvaða hætti það fyrirtæki hefur orðið til með viðskiptum við fólkið í landinu. Í ljósi þess sem ég er búinn að vera að tala um hvað varðar eignamyndun í Landsvirkjun og gríðarlega eignamyndun Reykjavíkurborgar og Akureyrar í fyrirtækinu á þeim forsendum sem liggja fyrir endurtek ég það bara. Mér finnst full ástæða til að menn fari yfir þessi mál í heild og beini því til hæstv. forsætisráðherra að hann hugsi þetta mál. Tækifærið til að gera þetta er núna. Endurskipulagningin er í gangi á raforkumarkaðnum og það er að mínu viti full ástæða til að skoða málið út frá þeim forsendum sem ég hef verið að tala um.