132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:21]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel sjálfsagt að fara yfir þessi mál og ég vil bara endurtaka það sem ég sagði. Ég er þeirrar skoðunar að langeðlilegast hefði verið að ljúka þessu máli með því að ríkið keypti hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun samkvæmt því mati sem þar lá fyrir. Það var óánægja hjá Reykjavíkurborg með það mat og ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún væri tilbúin að hnika einhverju til í því sambandi en þrátt fyrir það, af undarlegum ástæðum sem ég veit þó heldur meira um, varð ekki af því. Það hefði verið langeðlilegast í þessu máli eins og fulltrúar Reykjavíkurborgar báðu um. Þar með væri þetta allt saman komið í hendur ríkisins sem væri langeðlilegast við þær aðstæður sem nú eru á raforkumarkaði.

Það er mjög erfitt fyrir Reykjavíkurborg að vera annars vegar aðili að Landsvirkjun og hins vegar eigandi Orkuveitu Reykjavíkur. Það er komin samkeppni milli raforkufyrirtækja í landinu og ég sé ekki hvernig það er hægt til frambúðar að fulltrúar Reykjavíkurborgar sitji bæði í stjórn Orkuveitunnar og líka í stjórn Landsvirkjunar enda koma alltaf upp álitamál í slíkri samkeppni. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það þarf að fá hreinna borð í þessu og það hefði verið langbest að leysa það með þeim hætti. En það liggur alveg ljóst fyrir að Reykjavíkurborg hefði gífurlegan hagnað af slíkri sölu, og Akureyrarbær jafnframt.