132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:28]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hæstv. forsætisráðherra getur ekki talað mjög skýrt um þetta mál. Orð hans eru dýr. Ég bind hins vegar vonir við það að þegar fyrir liggur hver eignamyndunin verður raunverulega hjá Reykjavíkurborg og Akureyri af því að hafa fengið að taka þátt í þessu fyrirtæki í gegnum tíðina geti menn, ef þeir hafa til þess pólitískan vilja, metið hvernig þessi hagnaður hefur orðið til og hvað eigi þar að leggja til grundvallar og þá hvort viðskipti annarra landsins þegna við t.d. fyrirtæki eins og Rarik ættu ekki að gefa tilefni til þess að sú eignamyndun, sá auður sem hefur orðið til við rekstur Rariks, komi með einhverjum hætti í hendur þeirra byggðarlaga sem hafa byggt þann auð upp. Það er ekkert óskaplega flókið mál. Annað eins og það að reikna það út hefur verið leyst á vegum hins opinbera. Ég tel mikla ástæðu til þess, endurtek það hér og ætla að hafa það mín síðustu orð um þetta núna að full ástæða er til að bæta fyrir þessi mistök fortíðarinnar. Ég er ekkert að sakast við þá sem gerðu þessa samninga á sínum tíma. Þeir hafa sjálfsagt ekkert velt því fyrir sér eða áttu ekki möguleika á að sjá inn í framtíðina með þeim hætti að þeir vissu til hvers þetta mundi leiða. En alveg gríðarleg eignamyndun er auðséð í dag og fyrir mjög lágt framlag í raun og veru. Þessi eignamyndun hefur fyrst og fremst orðið til fyrir forustu hins opinbera.