132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:53]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Nú eru þeir aðilar sem hafa lýst yfir áhuga á þessum kaupum nátengdir Framsóknarflokknum og hafa áður fengið að kaupa ríkiseignir fyrir lítið. Ég er á því að til þess að allir hagsmunir séu ljósir í þessum málum þurfi að opna bókhald stjórnmálaflokkanna. Opið bókhald stjórnmálaflokka er lykillinn að því að við þurfum ekki að ræða þetta svona, lykillinn að því að allir hagsmunir séu ljósir.

Ég er á því að þessi umræða, þó svo við séum að ræða afmarkað mál eins og vatnsréttindi, tengist því að stjórnmálaflokkarnir hafa lokað bókhald. Það getur þess vegna verið þeirra hagsmunamál að þjóna fjársterkum sérhagsmunum, herra forseti, í stað þess að líta til hagsmuna alls almennings. Við sjáum að það hefur gerst hér hvað eftir annað í þjóðfélaginu. Við höfum séð það varðandi stjórn fiskveiða, þar virðast þröngir sérhagsmunir hafa ráðið og það hefur bitnað á sjávarþorpum víðs vegar um land. Við vorum að ræða byggðaáætlun í gær og þá kom fram að það voru einmitt sjávarþorpin sem höfðu orðið fyrir barðinu á stjórnarstefnu hæstv. forsætisráðherra m.a. og iðnaðarráðherra sem hafa ekki viljað ljá máls á því að breyta stefnunni þó að hún gangi þvert á hagsmuni þorra þjóðarinnar. Þetta er óþolandi og ég er á því að til þess að breyta þessu þurfi einmitt að opna bókhald stjórnmálaflokkanna, herra forseti.