132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get svo sem deilt áhyggjum þingmannsins í þessum efnum en það sem ég er fyrst og fremst að fjalla um eru vatnsréttindin, hið varanlega eignarhald á vatni og á landi, í þessu tilviki gagnvart virkjunaraðila, Landsvirkjun, í kringum Búrfell.

Ég tel að þjóðin eigi að eiga þessar eignir og ekki eigi að framselja þær með þeim hætti sem hér er verið að leggja til. Það er allt annað að ráðstafa nýtingarréttinum til einhvers tíma en það á ekki að gera þetta, hvort sem Landsvirkjun verður áfram í eign þjóðarinnar eða ef svo óheppilega vildi til að hún yrði markaðsvædd og seld, þá er þetta grundvallaratriði.

Fyrir utan það legg ég líka áherslu á að rafmagn í sjálfu sér er hluti af grunnþjónustu við atvinnulíf og búsetu og líf í landinu og á ekki í sjálfu sér að vera rekið á arðsemisgrunni. Arðurinn á fyrst og fremst að koma í gegnum öflugt atvinnulíf og samkeppnishæfa búsetu. Hvernig eigum við líka að fara í einhverja raunverulega virka samkeppni um raforku í lokuðu landi — eylandi eins og okkar land er — þegar slík samkeppni gengur illa í löndum sem eru umgirt öðrum löndum á alla kanta? Þessi hugmyndafræði um einhverja virka samkeppni hér á landi, að hún skaffi lægra rafmagn, er dæmd til að mistakast. Það sanna dæmin í þeim gríðarlegu hækkunum á raforkuverði sem við höfum mátt upplifa núna á þessu ári og hinu síðasta, sérstaklega á þessu ári eftir að markaðsvæðing raforkunnar er farin að koma til framkvæmda.