132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

329. mál
[13:31]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 740. Það er 329. mál. Það er nefndarálit með frumvarpi til laga um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997.

Í nefndaráliti frá meiri hluta allsherjarnefndar eru tilgreindir þeir sem skiluðu nefndinni umsögn um þetta mál og eins þeir gestir sem komu á fund nefndarinnar.

Með frumvarpinu er lagt til að kirkjuþing hafi vald til að skipa kjördæmum sínum með sama hætti og sóknum, prestaköllum og prófastsdæmum. Þá er lagt til að kirkjuþing hafi vald til að ákveða fjölda fulltrúa á kirkjuþingi í stað þess að slíkt sé lögbundið. Auk þess er lögð til sú breyting á kjöri fulltrúa á kirkjuþingi, sem samkvæmt gildandi lögum eru prestar og leikmenn úr hópi sóknarnefndarfólks, að í stað orðsins „prestar“ verði orðið „vígðir“ notað. Þar sem djáknar eru vígðir felur breytingin í sér að þeir teljast ekki lengur til leikmanna á kirkjuþingi. Með þessu er gert ráð fyrir að leikmenn verði fleiri á kirkjuþingi en vígðir.

Allsherjarnefndinni er kunnugt um það sjónarmið Prestafélags Íslands að breytingarnar hafi ekki verið nægilega vel kynntar en meiri hluti nefndarinnar telur engu að síður að þær hafi hlotið nauðsynlega umfjöllun, kynningu og afgreiðslu innan kirkjunnar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins sem er í 3. gr. í þá veru að lögin öðlist þegar gildi.

Undir þetta álit rita hv. nefndarmenn í allsherjarnefnd, hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, sú sem hér stendur, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Kjartan Ólafsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Guðrún Ögmundsdóttir. En hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Birgir Ármannsson undirrita nefndarálitið með fyrirvara.