132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

329. mál
[13:35]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera örstutta grein fyrir þeim fyrirvara sem við nokkur höfum við nefndarálitið og hann er kannski fyrst og fremst til að vekja athygli á afstöðu Prestafélagsins en þeir voru mótfallnir þessum breytingum núna og telja að þetta mál hafi ekki hlotið nægilega umfjöllun innan kirkjunnar. Í umsögn þeirra segir m.a., með leyfi forseta:

„Hugmyndir um breytingar á kosningu til kirkjuþings hafa ekki verið kynntar sérstaklega á héraðsfundum eins og skilja má af skýrslu kirkjuþingsnefndar til kirkjuþings 2005 um skipan prófastsdæma og kirkjuþingskosningar. Auk þess hefur ekki verið kallað eftir umsögnum héraðsfunda sem þó var óskað eftir í ályktun kirkjuþings frá 2004.

Jafnframt varar stjórn Prestafélagsins við þeirri breytingu á orðalagi sem er að finna í 2. gr. frumvarpsins þar sem talað er um „vígða“ í stað „presta“ og telur að breytt orðalag feli í sér afdrifaríka breytingu sem ekki hefur verið rædd til hlítar á vettvangi kirkjunnar.“

Þetta er ástæðan fyrir því að við vorum með þennan fyrirvara. Við viljum vekja athygli á þessu þar sem ekki er talið að nægjanleg umræða hafi farið fram innan kirkjunnar. Hins vegar er hér verið að einfalda innan kirkjunnar og maður getur í sjálfu sér alveg tekið undir það. Umræðan innan kirkjunnar og innan kirkjuþingsins um þessar breytingar hefði mátt koma skýrar fram. En þessi er fyrirvarinn, herra forseti, sem ég hef nú gert grein fyrir.