132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[13:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Flutningsmaður þessa er hæstv. forsætisráðherra og mig langar að spyrja forseta hvort hann sé í húsinu.

(Forseti (BÁ): Forseti hyggur að hæstv. forsætisráðherra hafi þurft að fara úr húsi. En hæstv. forsætisráðherra var kunnugt um að umræðan mundi halda áfram eftir matarhlé.)

Forseti reiknar þá með því að hann sé að fylgjast með umræðunni því ræða mín snýr mjög að hans fyrri verkum, meðal annars því þegar ríkið afsalar sér réttindum svo sem varðandi fiskveiðar og ríkisbanka.

(Forseti (BÁ): Forseti gerir ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra fylgist með því sem hér ...)

Ég ætlaði nefnilega ekki að tefja þessa umræðu. Ég ætla að flytja fremur stutta ræðu en hefði þótt vænt um ef hæstv. forsætisráðherra hlýddi á mál mitt. Reiknar forseti með að svo sé?

(Forseti (BÁ): Ef hv. þingmaður óskar eftir því skal forseti koma skilaboðum til hæstv. forsætisráðherra.)

Ég ætla að halda áfram með þessa ræðu í þeirri von að hæstv. forsætisráðherra leggi við hlustir. En því miður hefur framganga hans þegar ríkið hefur afsalað sér réttindum verið slík að það mætti halda að honum væri alveg sama. Ég er á því að það þurfi að fara rækilega yfir þessi mál.

Ein meginástæðan fyrir því að ég ákvað að halda þessa ræðu voru orð hv. þm. Magnúsar Stefánssonar. Þegar ég var í andsvörum við hv. þm. Jón Bjarnason þá fannst honum lágkúrulegt að ég skyldi blanda saman bókhaldi stjórnmálaflokka og svo því þegar ríkið væri að afsala sér réttindum. Þess vegna finnst mér rétt að fara rækilega yfir það því svo virðist sem þessi ágæti hv. þingmaður átti sig ekki á samhenginu. Þess vegna er mjög þarft að fara yfir þetta málefni.

Við getum farið yfir það að þegar ríkið hefur verið að koma frá sér eignum þá hafa þær stundum lent í höndum þeirra sem eru nátengdir flokkunum og þá liggja fyrir bæði grunsemdir og vissa um að svo sé, svo sem þegar fyrrum ráðherrar stóðu í samningaviðræðum um kaup á Búnaðarbankanum, svokallaður S-hópur sem er nátengdur Framsóknarflokknum. Áður en við afsölum okkur fleiri ríkiseignum þá þurfum við að búa svo um hnútana að ekki sé grunur um þetta. Hvernig gerum við það? Með því að opna bókhald stjórnmálaflokkanna í landinu. Ég er sannfærður um að meginþorri fólks í landinu vill að svo sé, enda er það fyrirkomulag sem hér ríkir alger undantekning. Menn þurfa að leita út fyrir Evrópu til að finna hliðstæðu við þessa leynd. Hættan við hana er sú að stjórnmálamenn sem vilja koma sér áfram í prófkjörum og heilu stjórnmálaflokkarnir kannski freistist til að treysta á fjársterka aðila sem veita fjármuni inn í dýrar kosningavélar flokkanna í stað þess að gæta almannahagsmuna. Ef allt er opið sér almenningur hvaðan peningurinn kemur, svo sem í prófkjörin núna hjá Samfylkingunni og ég tala nú ekki um hjá Framsóknarflokknum þar sem umræðan hefur verið sú að menn hafa einfaldlega keypt sér sæti. Það er þörf á því að fara í gegnum þetta. En það er eins og hv. þm. Magnús Stefánsson hafi ekki áttað sig á þessu. Hann kallaði þetta lágkúrulegt, ef ég man rétt. Það er það bara ekki. Um þetta snúast stjórnmálin, að allt sé uppi á borðinu eða sem mest og hvað þá fjármál þeirra sem sækjast eftir almannavaldi, fá að fara með vald og geta ráðstafað eignum. Hagsmunir þeirra eiga einnig að vera ljósir. Það stríðir í rauninni gegn allri skynsemi að svo sé ekki. Þess vegna er nauðsynlegt að fara í gegnum þetta.

Við getum farið yfir fleiri mál. Þegar Landsbanki Íslands var seldur var rifinn út úr honum hlutur sem bankinn átti í Vátryggingafélagi Íslands og hann færður í hendurnar á aðilum þóknanlegum Framsóknarflokknum. Þetta er náttúrlega alveg óþolandi. Og nú þegar hæstv. iðnaðarráðherra talar um að einkavæða raforkukerfið þá verðum við að búa svo um hnútana að það verði ekki fært í hendurnar á einhverjum flokksgæðingi. Við eigum ekki að líða það. Þess vegna eigum við að ræða þessa hluti saman. Ég vona að fólk átti sig á því. Það hefur komið fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra, m.a. í Kastljóssþætti sem hv. þm. Jón Bjarnason minntist á, að sú sé ætlunin og það má líta svo á að þetta litla myndskreytta frumvarp sé liður í því að búa svo um hnútana að þetta verði sett í sölubúning. Þess vegna er vert að fara rækilega í gegnum þessa umræðu alla.

Það er líka vert að fara yfir það að mér finnst eins og hæstv. iðnaðarráðherra hafi alltaf komið sér hjá því að ræða fleiri þætti í sambandi við þetta mál, t.d. það sem snýr að almenningi. Hvers vegna eigum við að markaðsvæða raforkukerfið? Það hafa aldrei komið nein rök fyrir því. Ég er fylgjandi því að sem mest sé á markaði og að sem mest sé í höndum einkaaðila. En það er ekki líklegt að fólkið í landinu styðji þessa stefnu áfram þegar það fær alltaf hærri og hærri rafmagnsreikning frá Framsóknarflokknum. Hvers vegna ætti fólkið í landinu þá að styðja áframhaldandi markaðsvæðingu? Ég sem er virkilega fylgjandi því að sem mest sé hjá einkaaðilum get ekki tekið undir þessa stefnu þegar fólkið í landinu fær alltaf hærri og hærri reikning.

Við verðum líka að gæta að öðru, þ.e. að við erum bara að tala um markaðsvæðingu á litlum hluta af heildarraforkuframleiðslunni, einungis 20%. 80% verða í föstum samningum til stóriðjunnar. Hæstv. iðnaðarráðherra ætti að svara öðru einnig, þ.e. hvers vegna við getum boðið hlutfallslega lægra orkuverð til stóriðjufyrirtækja en löndin í kringum okkur sem eru jafnvel að flytja álverksmiðjur. En síðan ef það heitir annar iðnaður sem er ekki eins stór í sniðum þá þarf að borga tiltölulega hærra verð og jafnvel miklu hærra verð en tíðkast í löndunum í kringum okkur. Þetta er eitt af því sem er ósvarað.

Þó svo ég nái ekki í skottið á hæstv. forsætisráðherra til að svara því hvort ekki væri ráð, áður en menn fara í frekari markaðsvæðingu og sölu á ríkiseignum — það blasir við öllum — að opna bókhald stjórnmálaflokkanna þannig að kjósendur hafi vissu fyrir því að ekki sé verið að selja eignirnar til þeirra sem hafa verið gjafmildir í flokkssjóði þá er ég viss um að hann mun svara þessu seinna hér á þinginu. Ég hyggst jafnvel leggja fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um hvort það sé ekki einmitt lykillinn að því að einkavæðingarstefna og markaðsvæðing verði trúverðug í framtíðinni.