132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[13:49]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott til þess að vita að hægt er að eiga bandamann í hv. þingmanni til að koma þessum málum á hreint en það er löngu orðið tímabært og ég vonast til þess að sú umræða sem fer fram nú verði einnig til að ýta við þessu máli en mig grunar að það hafi ekki endilega verið ætlunin hjá hæstv. forsætisráðherra þegar hann setti þessa nefnd af stað að hún skilaði einhverju. Ég held að þessi nefnd hafi verið mest sett af stað vegna þess að umræðan var orðin þung á þeim tímapunkti og þetta var kannski liður í því að fresta umræðunni. Því miður hefur nefndin ekki enn skilað neinni niðurstöðu. Ég fylgist mjög grannt með nefndarstarfinu og ég held að ég sé ekki að brjóta neinn trúnað þó að ég upplýsi að starf nefndarinnar sé ekki komið neitt ákaflega langt. Það er ekki komið neitt lagafrumvarp en það er verulega brýnt að ganga frá þessum málum eins og hv. þm. Jónína Bjartmarz tók undir. Ég er á því að ef það yrði, yrði það lýðræðinu mjög til góðs.