132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[13:50]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir í morgun, frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Er hæstv. forsætisráðherra ekki í húsinu?

(Forseti (BÁ): Forseti getur upplýst að hæstv. forsætisráðherra er ekki í húsinu en honum var kunnugt um að framhald yrði á umræðunni en eftir því sem forseti kemst næst varð hann knúinn til að fara til annarra verkefna. Forsætisráðherra hefur aftur verið látinn vita að umræðan haldi áfram og að nærveru hans sé óskað.)

Gæti ég þá beðið með ræðu mína þar til hæstv. forsætisráðherra kemur í hús?

(Forseti (BÁ): Forseti telur rétt að láta umræðuna halda áfram og sjá hvað kemur út úr þeim skilaboðum sem borin hafa verið til forsætisráðherra.)

Virðulegi forseti. Ég tek þá ákvörðun til greina og hef ræðu mína en vonast til að hæstv. forsætisráðherra hraði sér í hús hið fyrsta, en nái hann ekki hingað í tæka tíð þá kynni hann sér innihald þeirrar ræðu sem ég ætla að flytja núna. Þar mun ég benda á ákveðna hluti sem ég hygg að sé vert að taka til gaumgæfilegrar athugunar þegar þetta mál fer til meðferðar hjá hv. allsherjarnefnd.

Eins og fyrr sagði ræðum við frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Málið er tilkomið vegna úrskurðar óbyggðanefndar um það landsvæði sem Búrfellsvirkjun og vatnasvæði hennar er á. Óbyggðanefnd hefur úrskurðað að þessi landsvæði tilheyri ríkinu, þetta sé þjóðlenda sem eru þá landsvæði utan eignarlanda og ríkið sé eigandi hvers konar landsréttinda og hlunninda innan svæða sem ekki eru háð einkaeignarrétti.

Forsaga málsins er sú að þegar Landsvirkjun var stofnuð með lögum árið 1965 þá voru stofnendur fyrirtækisins ríkisstjórnin og borgarstjórn Reykjavíkur. Hvor um sig skyldi þá eiga helming fyrirtækisins. Þegar lög um Landsvirkjun voru samþykkt á hinu háa Alþingi fyrir 40 árum sagði í 4. gr. þeirra laga, eins og greint er frá í athugasemdum með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Jafnframt tekur Landsvirkjun við öllum vatnsréttindum og réttindum ríkisins og Reykjavíkurborgar til virkjana í Sogi og Þjórsá við Búrfell, sbr. 6. gr., svo og öllum áætlunum og undirbúningsframkvæmdum ríkisins vegna virkjunar við Búrfell.“

Og í 6. gr. laganna segir, með leyfi forseta:

„Landsvirkjun er heimilt að reisa allt að 210 MW raforkuver í Þjórsá við Búrfell ásamt aðalorkuveitum og gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatnasvæði Þjórsár ofan virkjunarinnar til að tryggja rekstur hennar. Enn fremur er Landsvirkjun heimilt að reisa eldsneytisaflstöðvar þær, sem fyrirtækið telur rétt að koma upp.“

Hér er sem sagt kveðið á um að Landsvirkjun fær þessi vatnsréttindi og réttindi ríkisins í Þjórsá við Búrfell. Þarna eru menn í þeirri trú að ríkið eigi þessi réttindi og þeir eru að sjálfsögðu að höndla þarna í góðri trú. Það skal ekkert dregið í efa, ég hygg að svo hafi ekki verið einungis um ríkið heldur alla sem áttu hlut að máli. Í athugasemdum með frumvarpinu eru sögulegar forsendur fyrir þessu raktar ítarlega með ágætum hætti. Hér er talað um Einar Benediktsson, þann merka athafnamann og listamann og síðan fossafélagið Titan og margt skemmtilegt má að lesa í þessari ágætu samantekt. En eins og áður sagði leiddi þetta til þess að árið 1965 er Landsvirkjun stofnuð af ríkinu og Reykjavíkurborg sem leggur þetta til í púkkið, ef svo má segja. Virkjun var síðan byggð, mikið átak á sínum tíma, stórt framfaraskref hygg ég að allir séu sammála um í dag. Það hefur m.a. komið fram í morgun í máli hæstv. forsætisráðherra að þessi virkjun sé í raun og veru betri í dag en hún var þegar hún var reist, svona mannvirki séu mjög varanleg ef vel er að þeim staðið, sem ekki skal dregið í efa. Eflaust er það alveg rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir að virkjunin sé miklu betra mannvirki núna en hún var. Það hafa að sjálfsögðu verið gerðar þarna tæknilegar umbætur og annað þess háttar.

Það hefur líka komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra að virkjunin sé að fullu afskrifuð. Ég held að það megi leiða líkum að því að þessi virkjun sé núna mjög arðbær. Hæstv. forsætisráðherra hefur bent á að sennilega verði þessi virkjun í fullum rekstri a.m.k. 100 ár í viðbót, hafi ég tekið rétt eftir í morgun, en virkjunarmannvirki sem eru afskrifuð að fullu verði í rekstri og mali gull í a.m.k. heila öld. Ég held að það sé engum vafa undirorpið að þessi mannvirki munu hreinlega verða til þess að þarna verði malað gull nánast í orðsins fyllstu merkingu. Þarna er fyrir hendi mikil mjólkurkýr sem heyrir undir Landsvirkjun sem í dag er í eigu ríkisins að hálfu en Reykjavíkurborg á 44,525% og Akureyrarbær 5,475%.

Það sem gerist núna með þessum úrskurði óbyggðanefndar er, eins og áður sagði, að þessi nefnd sem vinnur samkvæmt sérstökum lögum um þjóðlendur kemst að þeirri niðurstöðu að eignartilkalli Landsvirkjunar á þessu svæði er hafnað og þetta svæði telst því þjóðlenda í skilningi laganna og samkvæmt þessum lögum fer ríkið þar með eignarrétt. Það leikur enginn vafi á þessu. Þessi úrskurður liggur fyrir en það var ríkisstjórnin sem lét fara í þessa vinnu og þetta var gert undir forsæti þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Geirs H. Haarde, sem nú er hæstv. utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og þetta varð niðurstaðan. Þetta gerir það að verkum að menn standa frammi fyrir algerlega nýjum veruleika og þess vegna eru þessi lög núna sett, að ég hygg til að reyna að bjarga málinu einhvern veginn fyrir horn. Það er verið að koma með lög til að það verði hreinlega úrskurðað af hálfu Alþingis, til að Alþingi veiti þessa heimild eða taki ákvörðun um að Landsvirkjun skuli eiga þau réttindi sem fylgja virkjuninni. Í viðauka við lögin er birt kort yfir svæðismörk virkjunarinnar og mannvirki sem fylgja henni, bæði yfirfallsvegir, inntaksmannvirki, varnargarðar, sjálf aflstöðin, lónið og þar fram eftir götunum.

Mig langar hins vegar til að velta upp við þessi tímamót hvort endilega þurfi að vera sjálfgefið, virðulegi forseti, að ríkið hreinlega afsali sér þessu öllu til Landsvirkjunar án þess að nokkuð komi í staðinn. Hvers vegna í ósköpunum á það að vera svona sjálfgefinn hlutur? Mér finnst ekki sjálfgefið að svo sé því ef við skoðum málið þá má færa fyrir því rök að ríkið gerði þetta á sínum tíma í góðri trú. Það eru liðin 40 ár síðan. Fyrirtækið sem tók við þessum heimanmundi í búið ef svo má segja, þ.e. vatnsréttindum og réttindum ríkisins í Þjórsá við Búrfell, hlaut líka að taka við þessu í góðri trú en síðan kemur þessi úrskurður 40 árum síðar og þá breytist allt og á sama tíma er búið að afskrifa þetta mannvirki.

Mér finnst ekki hægt að færa nægilega góð rök fyrir því að þetta réttlæti það að hægt sé að láta Landsvirkjun hafa þetta nánast orðalaust og Alþingi afgreiði það bara með eins konar gúmmístimpli athugasemdalaust. Ég hygg að báðir aðilar hljóti að bera hér einhverja ábyrgð, bæði Landsvirkjun og ríkið, og að það sé full ástæða til að líta svo á að hér sé í raun og veru hreint borð í þessu máli og það verði að skoða það alveg upp á nýtt.

Ég velti fyrir mér þeirri hugmynd, virðulegi forseti, hvort ekki sé hreinlega ástæða til þess að ríkið geri leigusamning við Landsvirkjun um afnotaréttinn á þessu svæði, á vatnsaflinu og landsvæðinu þarna í kring, leigusamning til að mynda til 100 ára, þ.e. þann líftíma sem við ætlum að verði á þessari virkjun, a.m.k. miðað við orð hæstv. forsætisráðherra. Hugsanlega er þessi tími lengri og það verður þá hægt að endurnýja samninginn. En gerður yrði leigusamningur og Landsvirkjun mundi hreinlega greiða leigu til ríkisins fyrir afnot af þessu svæði. Er það ekki bara sanngjarnt? Landsvirkjun er sjálfstætt fyrirtæki og hvers vegna ættum við að láta þetta sjálfstæða fyrirtæki hafa þessa náttúruauðlind ókeypis, mér finnst það ekki réttlátt, og að það séu þá eigendurnir, þ.e. ríkissjóður 50% og Reykjavíkurborg og Akureyri, sem fái síðan arðinn af virkjuninni í sína vasa.

Mig langar til að velta því upp og vekja athygli á því að fólkið sem býr á Suðurlandi, íbúar Suðurlands, fólkið í héruðunum þarna í kring hefur síðustu áratugina þurft að leggja til náttúruauðlindir sínar eða þær náttúruauðlindir sem eru á þeirra svæðum, og þá er ég að tala um fallvötnin, til orkuframleiðslu. Þessi landshluti hefur því miður ekki fengið að njóta sem skyldi þessarar miklu orkuframleiðslu og þeirra verðmæta sem sú orkuframleiðsla hefur skapað. Orkan hefur verið flutt út úr landshlutanum nánast alveg frá upphafi. Er ekki kominn tími til að þessi landshluti fái að njóta þessa? Er hér ekki komið gullið tækifæri til að koma málum þannig fyrir að þetta yrði að veruleika? Því velti ég upp þeirri hugmynd, eins og ég sagði áðan, að gerður verði leigusamningur við Landsvirkjun sem greiddi þá sanngjarnt verð fyrir afnotaréttinn, ef svo má segja, fyrir leiguna á gæðum þessarar auðlindar. Ríkið tæki við peningunum en peningarnir yrðu þá hugsanlega settir í einhvern ákveðinn sjóð eða eyrnamerktir með einhverjum hætti þannig að þeir nýttust til góðs fyrir Suðurland, sveitirnar þarna í kring, t.d. til atvinnuuppbyggingar, til skóla eða einhvers annars sem varðar velferð fólks á svæðinu. Mér finnst það fyllilega þess virði að það verði athugað og skoðað. Ég veit t.d. að í Noregi eru ríkustu sveitarfélögin þar ekki þau sveitarfélög sem hafa hugsanlega aðgang að olíu- og gaslindum, það eru sveitarfélögin sem höfðu yfir að ráða vatnsréttindum til virkjana. Það eru sveitarfélögin sem bjuggu svo vel að vera á svæðum þar sem voru vatnsföll sem hægt var að virkja og þessi vatnsföll hafa malað gull fyrir þjóðarbúið og sveitarfélögin á viðkomandi svæðum hafa að sjálfsögðu fengið sinn skerf af kökunni. Mér finnst bara sjálfsagt og eðlilegt að svo sé.

Virðulegi forseti. Ég vildi nota tækifærið til að velta þessari hugmynd hér upp. Það finnast eflaust fleiri rök með þessu og að sjálfsögðu hljóta líka að finnast rök á móti. Ég býst við að lögfræðingar Landsvirkjunar séu búnir að liggja yfir þessu máli og skoða þetta ítarlega frá öllum hliðum og eigi jafnvel einhvers staðar gambít til að mæta einmitt þeirri hugmynd sem ég varpaði fram. Ég skal ekkert um það segja en það kæmi mér ekki á óvart. Ég reikna með að þetta mál verði tekið til ítarlegrar umfjöllunar í allsherjarnefnd og þetta verði skoðað og að heimamenn verði kallaðir á fund nefndarinnar og álit þeirra fengið til að mynda og vonandi á þessari hugmynd og hvort þetta sé hugsanlega fær leið, hvort hægt sé skoða þetta mál lögfræðilega og finna þennan flöt á málinu. Það má vel vera að það kosti málaferli en væri bara ekki allt í lagi að láta reyna á það og fá þann úrskurð? Við getum hugsað okkur aðrar virkjanir, hugsanlega önnur svæði. Þetta gæti skapað eins konar lagalegt fordæmi, ég skal ekki um það segja, ég er ekki lögfræðimenntaður. Ég hef svo sem ekki legið mikið yfir þessum málum, virðulegi forseti, en mér finnst þetta hugmynd sem vert væri að skoða og því kvaddi ég mér hljóðs og vakti athygli á þessum fleti á málinu.