132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[14:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst að enda þótt hv. þingmaður eigi sæti í allsherjarnefnd hefði hann átt að koma hér upp og lýsa afstöðu sinni til þessa frumvarps eins og það liggur fyrir núna. Í störfum Alþingis skiptir verulegu máli þegar þingmenn koma upp í ræðustól að þeir lýsi afstöðu sinni til einstakra mála. Ræður eru hluti af lögskýringargögnum, þær hafa verið notaðar sem hluti af lögskýringargögnum til að mynda við úrskurði. (KÓ: Og nefndarálit.) Og nefndarálit að sjálfsögðu líka. Það skiptir þó nokkuð miklu máli að þingmenn komi upp og lýsi skoðun sinni og mér finnst að þingmenn Suðurkjördæmis hefðu átt að koma hér upp einn af öðrum og tjá sig um frumvarpið, því að ég tel að hér sé í raun og veru verið að takast á um grundvallarhagsmuni fólks í kjördæminu. Við erum að tala um auðlindanýtingu, nýtingu á algerum grundvallarauðlindum og það eru einmitt orkuauðlindirnar sem eru kannski helsta og dýrasta djásn Suðurlands. Framsýnir menn sáu það strax fyrir mörgum áratugum að orkan væri einmitt eitt af dýrustu djásnunum af mörgum djásnum Suðurlands. Einar Benediktsson var einn þeirra en það má líka nefna aðra merka menn eins og Jónas Jónsson frá Hriflu. Nóg um það, virðulegi forseti.

Ég fagna því samt þrátt fyrir þetta að hv. þm. Kjartan Ólafsson sé þó í allsherjarnefnd og vænti þess þá að hann taki þar málið föstum tökum og gæti hagsmuna umbjóðenda sinna, sem eru kjósendur á Suðurlandi, og að hér verði ekki gengið til verknaðar sem menn munu síðar sjá að hafi verið mikil mistök og mikil auðæfi verði kannski höfð af íbúum Suðurlands og það algerlega að ósekju.