132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:18]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpi þessu er með því kveðið á um nokkrar breytingar á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.

Í fyrsta lagi er lagt til að tekin verði gjöld af beiðnum til héraðsdóms og sýslumanns á grundvelli laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum, en samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til slíkra laga. Við ákvörðun gjaldanna var höfð hliðsjón af ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs sem kveða á um gjöld fyrir þingfestingu einkamáls og gjöld fyrir fullnustugerðir, enda er hér um nokkra samsvörun að ræða.

Í annan stað er lagt til að gjald fyrir umsókn um íslenskan ríkisborgararétt verði hækkað úr 1.350 kr. í 10.000 kr. og að gjald fyrir tilkynningu um ríkisborgararétt verði hækkað úr 1.350 í 5.000 kr. Til samanburðar má geta þess að gjald fyrir ríkisborgarabréf í Danmörku er um 11 þúsund kr., í Finnlandi 38 þús. kr., í Noregi 22 þús. kr. og í Svíþjóð 16.500.

Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp gjald fyrir afgreiðslu umsókna um dvalarleyfi og búsetuleyfi. Gríðarleg aukning hefur verið í umsóknum um slík leyfi á undanförnum árum og mikil vinna og umstang sem liggur að baki hverri afgreiðslu. Lagt er til að gjöldin verði á bilinu 1.000–8.000 kr.

Í fjórða lagi er lagt til að tekið verði upp hóflegt gjald fyrir beiðni til mannanafnanefndar um samþykki fyrir nafni.

Í fimmta lagi er lagt til að tekið verði gjald fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði en gert er ráð fyrir í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað að kveðið sé á um slíka gjaldtöku í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru í takt við forsendur í tekjuáætlun fjárlagaársins 2006.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.